Reynir á stoðirnar

Jón Steinar Gunnlaugsson ávarpar gesti í útgáfuhófibókar sinnar, Með lognið …
Jón Steinar Gunnlaugsson ávarpar gesti í útgáfuhófibókar sinnar, Með lognið í fangið, sem kom út í gær. mbl.is/Ófeigur

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt, fjallar með gagnrýnum hætti um vinnubrögð réttarins í nýrri bók, Með lognið í fangið, sem kom út í gær. Jón Steinar fer þar sérstaklega yfir það hvernig Hæstaréttur hafi tekið á svonefndum „hrunsmálum“ þar sem þátttakendur í fjármálalífinu hafi verið dæmdir í þungar refsingar á vafasömum forsendum.

Þetta er ekki fyrsta bókin sem Jón Steinar skrifar með gagnrýni á dómaframkvæmd, en þrjátíu ár eru liðin í ár frá því að bók hans, Deilt á dómarana, kom út. „Það er einhver þráður í mér sem á afar erfitt með að þola hvers kyns misbeitingu á opinberu valdi, og þar með dómsvaldi.“ Jón Steinar segir að það hafi drifið sig áfram, því að hann telji að fólkið í landinu eigi skilið vandaðri vinnubrögð en þau sem hafi orðið ofan á í þessum mikilvægu stofnunum.

Ber að dæma eftir lögunum

Í bók Jóns Steinars kemur meðal annars fram sá grunur hans, að dómarar við Hæstarétt hafi látið almenningsálitið hafa áhrif á sig í þessum málum. „Og það er auðvitað alveg forkastanlegt, því að dómstólar eiga ekki að dæma undir slíkum áhrifum, en ber bara mjög öguð skylda til þess að dæma eftir lögum, alveg sama hvað á dynur.“

Hann bendir á að í íslenskri réttarsögu séu mjög hörmuleg dæmi um það hvernig dómstólum hafi orðið á þegar þeir létu undan bylgjum almenningsálitsins. „Bestu dæmin um það eru Guðmundar- og Geirfinnsmálið, á sínum tíma var látið undan því sem dómstólarnir töldu að almenningur vildi, að sakfella ungmenni fyrir þau manndráp sem þar var fjallað um, án þess að nokkur viðhlítandi sönnun væri til staðar. Og nú blæs vindurinn úr hinni áttinni og allir vilja að þessir dómar verði teknir upp og felldir niður,“ segir Jón Steinar og bendir á að sakborningar í þeim málum hafi nú þegar setið í fangelsi um langa hríð, og sumir þeirra séu jafnvel látnir.

Hann segir að það reyni jafnvel mest á stoðir réttarríkisins þegar órói sé í samfélaginu. „Þetta er spurning um það hvort við getum kallað okkur réttarríki, hvort dómstólar standast álag sem kemur upp og beita hörðum lagaviðmiðum við dómsýslu sína, þó að mikið gangi á í þjóðfélaginu.“

Spurningar um vanhæfi

Í bókinni fer Jón Steinar sérstaklega yfir nokkur atriði þar sem hann átelur dómsýslu Hæstaréttar. Þar á meðal eru dómar um umboðssvik og markaðsmisnotkun og segir Jón Steinar að Hæstiréttur hafi teygt sig til sakfellingar með breyttri túlkun á lagabókstafnum. „Dómar Hæstaréttar eiga ef allt er með felldu að hafa fordæmisáhrif. Það er í lögum skilyrði fyrir refsingu fyrir umboðssvik að ásetningur sannist á brotamann og sá ásetningur þarf að lúta að því að hafa fé af þeim sem hann fer með umboð fyrir í þágu sjálfs sín eða annarra, og ég sé ekki betur en að Hæstiréttur sé búinn að henda þessu skilyrði útbyrðis, sem er að mínu mati algjörlega utan við lög og rétt að gera.“ Jón Steinar segir þá eðlilegt að spyrja hvort í framtíðinni verði það svo að ekki þurfi að sanna auðgunartilgang í auðgunarbrotum. „Það hefur þá orðið meiriháttar breyting á íslenskum lögum við þessa dóma.“

Brýnt að breyta til

Í bók sinni leggur Jón Steinar til ýmis atriði sem fallin væru til þess að auka traust á dómstólunum, og nefnir meðal annars það að taka þurfi af Hæstarétti ákvarðanavald um það hverjir skipist þar nýir inn, svo að sérvaldir góðkunningjar eigi þar ekki greiða leið inn.

„Kjarni málsins er sá að Íslendingar hljóta að geta sameinast um að búa þannig að dómstólum í landinu, reglum um þá og val á dómurum að fólkið í landinu hafi ástæðu til að treysta þessum stofnunum,“ segir Jón Steinar. Hann segir það óskiljanlegt af hverju menn fari undan í flæmingi þegar þessi mál ber á góma. Það sé í raun nauðsynlegt að bera fram rökstudda og málefnalega gagnrýni á dómstólana.

„Ég á mér þá hugsjón að börnin okkar þurfi ekki að upplifa sömu lausatök við meðferð á dómsvaldi í þessu landi sem við höfum mátt gera,“ segir Jón Steinar að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert