Sagðist hafa bitið tunguna óvart

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Ófeigur

Hæstiréttur Íslands hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að áströlsk kona skuli sæta farbanni til 29. nóvember. Hún er grunuð um að hafa bitið tunguna af eiginmanni sínum.

Konan mun hafa verið í heimsókn hjá manni sínum þegar atburðurinn gerðist.

Í úrskurði héraðsdóms frá því á miðvikudag kom fram að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar meintar líkamsárásir konunnar gagnvart eiginmanni sínum og annarri konu aðfararnótt 1. nóvember.

Hin konan sagði að konan hefði ráðist á sig, rifið í hár sitt og bitið í fingur.

Ástralska konan sagði við lögreglu á vettvangi að hún hafði reiðst vegna þess að eiginmaður hennar hafi gert sér dælt við hina konuna.

Jafnframt kvaðst konan sem er í farbanni hafa bitið eiginmann sinn óvart. Einnig kvaðst hún ekki hafa skilið þann styrk sem hún hafði í tönnunum þegar hún hafi bitið í tunguna á manninum.

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að brotið geti varðað allt að 16 ára fangelsi.

„Brotið sé sérstaklega alvarlegt gagnvart eiginmanni kærðu þar sem bitið hafi verið hluti framan af tungu hans og óvíst sé á þessu stigi hvort um varanlegar afleiðingar geti verið að ræða af völdum árásarinnar. Þá hafi kærða einnig ráðist að hinum brotaþola málsins, bitið í fingur hennar og rifið harkalega í hár hennar þannig að hárflyksur losnuðu.“

Fyrirhuguð heimför konunnar til Ástralíu var í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert