Enginn komst inn í rúman klukkutíma

Röðin var löng fyrir utan Listasafnið í gærkvöldi.
Röðin var löng fyrir utan Listasafnið í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikil og löng röð myndaðist fyrir utan Listasafnið í Hafnarhúsinu í gærkvöldi þar sem fram fóru nokkrir tónleikar á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni. Að sögn Gríms Atlasonar, framkvæmdastjóra hátíðarinnar, var ekki hægt að hleypa fleirum inn í Listasafnið í um það bil eina klukkustund en þar fóru fram tónleikar með Mura Masa, Sturla Atlas, Sigrid og FM Belfast og fleiri listamönnum.

Grímur segir hátíðina hingað til hafa gengið í alla staði mjög vel og að mestu leyti hafi tekist að koma í veg fyrir langar raðir. Undanfarin ár hafa margir tónleikar á hátíðinni farið fram í Hörpu en sú er ekki raunin í ár. Að sögn Gríms hefur gengið vel að koma öllu fyrir þrátt fyrir að Hörpu njóti ekki við. Í snjallsímaforriti hátíðarinnar er hægt að sjá hversu erfitt eða auðvelt er að komast inn á tónleikastaðina, hvar sé líklegt að verði fullt og hvar sé auðveldara að komast að.

„Það hafa ekki verið neinar raðir sem hafa verið endalausar og fólk staðið endalaust í þeim. Fólk hefur getað farið á milli og farið bara á næsta stað og næsta stað og það hefur gert það af verkum að við höfum verið með mjög fulla staði,“ segir Grímur. Undantekningarnar séu hápunktar á borð við gærkvöldið á Listasafninu þar sem enginn komst inn í rúmlega klukkutíma.

„Það var rúmlega klukkutími sem það var ekki séns að komast þarna inn en þegar böndin eru búin þá eru útskipti,“ segir Grímur. „Þannig er auðvitað hátíðin, það geta ekki allir verið á sama staðnum,“ bætir hann við og hvetur alla þá sem að vilja komast að á ákveðnum tónleikum að vera snemma í því og mæta í góðan tíma fyrir tónleikana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert