Tíðni kynsjúkdóma á Íslandi hefur aukist á undanförnum árum og heldur áfram að fara vaxandi. Með vaxandi útbreiðslu kynsjúkdóma hér á landi má búast við að sjá alvarlegar afleiðingar kynsjúkdóma á borð við sárasótt og HIV sem ekki hafa sést hér um árabil.
Ástæður aukningarinnar eru ekki alveg ljósar en Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir vekur athygli á málinu í nýjasta tölublaði læknablaðsins.
Þórólfur segir að vafalaust sé um marga samspilandi þætti að ræða, til að mynda vaxandi kæruleysi í kynlífi, skort á notkun smokka, vaxandi fjölda dvalarleyfisumsækjenda og mikill fjöldi ferðalaga Íslendinga erlendis.
Frá árinu 2004 hefur árlegur fjöldi þeirra sem greinast með lekanda aukist en á árinu 2016 greindust 27 einstaklingar á hverja 100.000 íbúa, alls 89 manns, með sjúkdóminn. Þá hefur árlegur fjöldi nýgreindra einstaklinga með sárasótt aukist umtalsvert frá árinu 2013 og greindust 10 á hverja 100.000 íbúa, alls 33, á árinu 2016. Þessi þróun hefur haldið áfram á þessu ári og stefnir í tvöfalt fleiri nýgreiningar á árinu miðað við árið 2016 að sögn Þórólfs.
Fjöldi nýgreindra með HIV hefur verið um 8-13 á ári en frá árinu 2010 hefur fjöldinn aukist. Árið 2016 greindust 28 manns með HIV og höfðu þá ekki fleiri einstaklingar greinst á einu ári síðan faraldurinn hófst.
Þá greinast um 2000 manns árlega með klamydíu hér á landi en sá fjöldi hefur verið stöðugur á síðustu árum. Nýgengi klamydíu hérlendis með því hæsta sem þekkist í Evrópu
Þessi þróun á útbreiðslu kynsjúkdóma er ekki bundin við Ísland en sama þróun hefur átt sér stað bæði austan hafs og vestan að því er fram kemur í grein Þórólfs í Læknablaðinu.
Hann segir mikilvægt taka höndum saman um að snúa þessari þróun við en fyrr á árinu skipaði heilbrigðisráðherra starfshóp undir forystu sóttvarnalæknis sem fékk það verkefni að koma með tillögur að aðgerðum til að stemma stigu við útbreiðslu kynsjúkdóma. Hópurinn mun skila tillögum sínum á næstunni.