Úr Newmans verndar hálendið

Paul Newman með úrið góða.
Paul Newman með úrið góða.

Hjálparsveit skáta í Reykjavík og hálendi Íslands eru meðal þess sem nýtur góðs af söluandvirði dýrasta armbandsúrs mannkynssögunnar. Téð úr, sem er af gerðinni Rolex Daytona og var upphaflega í eigu leikarans Pauls Newmans, var selt á uppboði hjá Phillips í New York á dögunum fyrir um það bil 1,8 milljarða króna.

Skýringin á því að litlum hluta söluandvirðisins skolar upp á Íslandsstrendur er sú að seljandinn, James Cox, kolféll fyrir landi og þjóð þegar hann kom hingað fyrst til að stunda fjallahjólreiðar fyrir tveimur árum. Cox er fyrrverandi tengdasonur Newmans sem gaf honum úrið árið 1984.

Um er að ræða tvíþætt framlag; annars vegar hyggst Cox persónulega styrkja Hjálparsveit skáta í Reykjavík í viðurkenningarskyni fyrir vel unnin störf á hálendinu og víðar gegnum vin sinn Kjartan Long fjallaleiðsögumann og hins vegar vill hann leggja sitt af mörkum til verndunar hálendisins gegnum Nell Newman-góðgerðarstofnunina, þar sem hann er gjaldkeri, en fram hefur komið að stærstur hluti söluandvirðis úrsins mun fara til góðgerðarmála í anda upprunalegs eiganda úrsins. Paul Newman var sem kunnugt er mikill mannvinur og lagði góðum málefnum gjarnan lið. Cox getur ekki um upphæðir í þessu sambandi, alltént ekki að svo komnu máli.

„Ég kynntist Kjartani Long í hittifyrra þegar hann var leiðsögumaður minn í hjólaferð á hálendinu og hann er frábær náungi sem ég lít orðið á sem góðan vin minn. Mér finnst tilvalið að Kjartan hafi milligöngu um að koma framlaginu til Hjálparsveitar skáta í Reykjavík til skila, hann á aðild að sveitinni,“ segir James Cox í símasamtali við Morgunblaðið en hann er búsettur í Santa Cruz í Kaliforníu, þar sem hann starfrækir gleraugnafyrirtæki. „Ég hef komið víða við gegnum tíðina, ætli sé ekki best að titla mig frumkvöðul og Íslandsunnanda.“

James Cox og Kjartan Long á hálendi Íslands.
James Cox og Kjartan Long á hálendi Íslands.

Sjálfur mun Cox afhenda styrkinn sem hefur það hlutverk að stuðla að verndun hálendisins þegar hann sækir landið heim á næsta ári. Líklega verður Nell Newman þá einnig með í för. „Salan á úrinu er mikil blessun sem mun gera mér kleift að leggja mitt af mörkum víða á komandi misserum. Ég leit aldrei þannig á að úrið væri mitt, sá mig miklu frekar sem vörslumann þess og að á endanum myndi það hafa góð áhrif. Nú er sá tími upp runninn.“

Hann viðurkennir þó að gjöfin hafi á sínum tíma verið mjög persónuleg. „Paul Newman var einstakur maður, hlýjan og góðmennskan uppmáluð. Það var mjög kært með okkur, Paul var mér sem faðir, og það er ekki hægt að hugsa sér betri fyrirmynd í þessu lífi. Ég lærði margt af Paul. Þess vegna þótti mér vænt um það þegar hann gaf mér úrið sitt.“

Cox óraði á hinn bóginn aldrei fyrir því að úrið væri svona verðmætt. „Mér brá dálítið þegar ég komst að því fyrir nokkrum árum að úrið sem slíkt átti sér stóran hóp aðdáenda. Það varð til þess að ég tók það af mér og kom því vandlega fyrir í bankahólfi,“ viðurkennir hann.

Paul Newman og Joanne Woodward.
Paul Newman og Joanne Woodward.

Salan hefur vakið heimsathygli og skyndilega er Paul Newman, einn dáðasti leikari sinnar kynslóðar, aftur á allra vörum. Því fagnar Cox frá innstu hjartarótum. „Við Bandaríkjamenn þurfum á hetju að halda. Þetta eru slíkir hörmungatímar í stjórnmálalífi landsins, án þess að ég nenni að fara nánar út í þá sálma, að við þurfum nauðsynlega á upplyftingu að halda. Og hver er betri til að færa okkur hana en Paul Newman, gegnheilt góðmenni sem hugsaði fyrst um aðra, síðan sjálfan sig. Loksins hafa fjölmiðlar um eitthvað uppbyggilegt að fjalla.“
Spurður hvort hann ætli að halda einhverju af söluverðinu eftir fyrir sjálfan sig svarar Cox: „Já, ég verð eiginlega að gera það. Sjáðu til, mig vantar nefnilega nýtt úr!“

Hann hlær.

„Að öllu gamni slepptu þá ætla ég að halda eftir litlum hluta; ég held að Paul hefði viljað það. Hann hefði viljað að ég gæti hugsað vel um mig og mína. Annars hafa peningar aldrei skipt mig máli og ég geri fræg orð Pauls stundum að mínum: Vilji fólk gefa eitthvað af sínum peningum, ætti það ekki að bíða þangað til það er komið í gröfina!“

Við það stóð Paul Newman og með gildum rökum má halda því fram að hann sé ennþá að gefa af auðæfum sínum. Níu árum eftir andlátið.

Nánar er rætt er við Cox í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert