Veðrið hefur áhrif á þúsundir farþega

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Alls hefur þurft að fresta verulega eða aflýsa 55 flugferðum hjá flugfélaginu Icelandair vegna veðurofsans sem nú gengur yfir. Hefur það áhrif á alls um 8.000 farþega sem áttu bókað í þær ferðir sem um ræðir hjá Icelandair. WOW air hefur aflýst fjórum ferðum í dag og átta hefur verið seinkað, sem hefur áhrif á fjölda farþega til viðbótar.

„Þetta teygir sig inn í morgundaginn en við gerum samt ráð fyrir að síðdegis á morgun verði þetta nokkurn veginn komið í samt horf en auðvitað fer það eftir veðri og öðru,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við mbl.is.

Að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW air, veltur seinkunin í flestum tilfellum á því hvort flugvöllum á áfangastöðum verður lokað á miðnætti. „Ég er ekki með tölu en allar vélarnar okkar eru með yfir 90% [nýtingu] svo þetta eru mjög margir farþegar sem þetta hefur áhrif á,“ segir Svanhvít.

Flugfélögin hvetja farþega sem eiga bókað flug í dag og á morgun til að fylgjast vel með áætlun yfir komur og brottfarir á heimasíðu flugvallarins í Keflavík sem uppfærð er reglulega. Ekki hefur náðst samband við talsmenn Isavia í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert