Rafmagnslaust í Hafnarfirði og víðar

Björgunarsveitarbíll í myrkrinu í Hafnarfirði í kvöld.
Björgunarsveitarbíll í myrkrinu í Hafnarfirði í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rafmagnslaust er nú víða í Hafnarfirði og á Kjalarnesi. Á heimasíðu Veitna kemur fram að vegna bilunar sé rafmagnslaust á Kjalarnesi en rafmagn sé komið á alls staðar nema ofan Grundahverfis og verði þar rafmagnslaust til morguns. Rafmagn er einnig farið af í Reykjanesbæ og í Garðabæ. 

Þá er einnig rafmagnslaust vegna háspennubilunar á Bláfjallasvæðinu og unnið er að viðgerð. Vonast er til að rafmagn verði aftur komið á innan stundar.

Uppfært kl. 21:18

Samkvæmt upplýsingum frá HS Veitum liggur ekki ljóst fyrir ennþá hversu stórt svæði í Hafnarfirði er rafmagnslaust. Viðgerðarmenn eru á leiðinni á aðalveitustöð við Öldugötu í Hafnarfirði til að kanna aðstæður. Sennilegt þykir að rafmagnsleysið tengist óveðrinu sem nú gengur yfir en ekki er hægt að staðfesta það að svo stöddu.

Uppfært kl. 21:49

Rafmagnslaust er á öllum Suðurnesjum sem stendur en viðgerðarmenn HS Veitna og Landsnets eru að störfum við viðgerðir. Samkvæmt upplýsingum frá HS Veitum er vonast til þess að rafmagn komist aftur á innan nokkurra mínútna. Erfitt er þó að segja til um það að svo stöddu hversu langan tíma viðgerðir munu taka þar sem ekki liggur ljóst fyrir hvað olli útslættinum.

Verið er að skipta um spenna sem ætti að gera það af verkum að rafmagn komist aftur á fljótlega.

Uppfært kl. 21:55:

Rafmagn er nú aftur komið á í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi. Um það bil helmingur Hafnarfjarðar var rafmagnslaus um stundarsakir nú í kvöld og í hluta Garðabæjar og á Álftanesi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert