Björguðu 9 manna fjölskyldu

Skútan lá við Torfunesbryggju.
Skútan lá við Torfunesbryggju. Ljósmynd Auðunn Níelsson

Lögreglan og björgunarsveitarfólk á Akureyri kom níu manna fjölskyldu til bjargar í Torfunefshöfn á Akureyri í nótt eftir að skúta þeirra losnaði frá bryggjunni. Fjölskyldan býr í skútunni en yngsta barnið er tveggja mánaða gamalt. 

Að sögn varðstjóra í lögreglunni kom hjálparbeiðnin um kl. hálfeitt í nótt en veðrið hafði versnað til muna líkt og spáð hafði verið. Þrátt fyrir að veðrið hafi verið ágætt inni í Þorpi og víðar á Akureyri þá var veðrið mun verra austan megin við Eyjafjörð og afar slæmt í sjóinn. Eins er Torfunefsbryggjan, við Hof, mjög illa varin fyrir suðaustanáttinni. 

Nokkrar minni skútur eru í höfninni en enginn var um borð í þeim. Skúta fjölskyldunnar, sem er mun stærri, losnaði alveg frá og mátti vart tæpara standa þegar björgunarsveitarfólki og lögreglu tókst að bjarga þeim á land. 

Að sögn varðstjóra slitnuðu festingar (fingur) sem skúturnar eru festar saman með við flotbryggjuna og auk stóru skútunnar hafði ein minni skúta nánast alveg losnað frá. 

Ekki komu önnur mál til kasta lögreglunnar á Akureyri í nótt og veðrið var ágætt þar þegar mbl.is ræddi við lögregluna á sjötta tímanum í morgun. Fjölskyldunni var komið í húsaskjól í bænum en eftir er að kanna með skemmdir á skútunni og verður það gert í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert