72% íbúða seldar á undirverði

Íbúðir seljast að meðaltali undir ásettu verði á öllum markaðssvæðum á landinu. Það á jafnt við um miðborg Reykjavíkur, úthverfi borgarinnar og á landsbyggðinni. Í september seldust um 72% íbúða á höfuðborgarsvæðinu undir ásettu verði, en 14% á ásettu verði og 14% yfir ásettu verði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Íbúðalánasjóðs.

Áfram hægir á verðhækkunum íbúða á höfuðborgarsvæðinu og í sumum hverfum hefur verð lækkað. Meðalsölutími íbúða er nú svipaður í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins eins og miðsvæðis í Reykjavík. 19% þjóðarinnar telja líklegt að þau verði á leigumarkaði eftir hálft ár.

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,8% milli mánaða í september, en 12 mánaða hækkun vísitölunnar í september var 19,6%. Frá því um miðbik sumars hafa komið fram skýrar vísbendingar um að hægt hafi á fasteignamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu eftir mikla uppsveiflu fyrr á árinu.

Færri viðskipti hafa átt sér stað undanfarna mánuði en á sama tíma í fyrra, og í einstökum hverfum höfuðborgarsvæðisins hefur verð staðið í stað eða jafnvel lækkað undanfarna mánuði.

Verð lækkar mest í 109

Vegið fermetraverð lækkaði milli annars og þriðja ársfjórðungs þessa árs í fimm póstnúmerum á höfuðborgarsvæðinu.Mest var lækkunin í póstnúmerinu 109 sem nær til Seljahverfis og Neðra-Breiðholts, eða um 5%, en verð lækkaði einnig m.a. í Vesturbæ Reykjavíkur, eldri hluta Kópavogs og á Seltjarnarnesi.

„Það er ekki endilega áhyggjuefni fyrir eigendur fasteigna að verð lækki milli einstakra mánaða eða ársfjórðunga í einstökum hverfum en vert er að halda áfram að fylgjast með þessari þróun,“ segir í skýrslu Íbúðalánasjóðs.

Hverfi 103 hækkar í verði og eins 113

Á móti kemur að fasteignaverð hækkaði mikið milli ársfjórðunga í 103 Reykjavík, sem nær til hluta Háaleitishverfis, og í 113 Reykjavík, sem nær til Grafarholts og Úlfarsárdals. Verð hækkaði einnig í Garðabæ og miðsvæðis í Hafnarfirði, svo dæmi séu tekin.

Tekur 50 daga að selja íbúð

„Mánaðarskýrsla Íbúðalánsjóðs fyrir nóvember hefur nú verið birt. Þar kemur fram að áfram hægir á verðhækkunum íbúða á höfuðborgarsvæðinu eftir mikla uppsveiflu fyrr á árinu. Jafnframt hafa færri viðskipti átt sér stað undanfarna mánuði en á sama tíma í fyrra. Í sumum hverfum höfuðborgarsvæðisins hefur verð lækkað örlítið undanfarna mánuði, en það gerist í kjölfar mikilla hækkana á fyrstu mánuðum ársins.

Tíminn milli þess sem íbúðir eru auglýstar og kaupsamningur undirritaður hefur farið minnkandi um land allt síðan 2015. Mesta breytingin hefur orðið í sveitarfélögum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar meðalsölutími íbúða hefur lækkað úr 200 dögum í upphafi árs 2016 niður í rúmlega 50 daga um þessar mundir, sem er svipaður tími og tekur að selja íbúð á höfuðborgarsvæðinu.

Íbúðir seljast að meðaltali undir ásettu verði á höfuðborgarsvæðinu jafnt sem á öðrum landsvæðum. Í september seldust 72% íbúða á höfuðborgarsvæðinu undir ásettu verði. Það hlutfall hefur aukist síðustu mánuði, en í apríl seldust 54% íbúða undir ásettu verði.

Leigumarkaður heldur áfram að stækka. Nýjasta mæling síðan í september sýnir að 17% þjóðarinnar eru á leigumarkaði og 19% telja líklegt að vera þar eftir 6 mánuði. Flestir leigjendur vilja þó kaupa fasteign og hefur hlutfall leigjenda sem segjast geta safnað sparifé farið hækkandi síðustu ár,“ segir enn fremur en skýrsluna má lesa í heild hér að neðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert