Egill Einarsson segist fagna niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu. „Ég var alltaf mjög hissa á þessum dómi Hæstaréttar en Mannréttindadómstóllinn vandaði greinilega til verka,“ segir í yfirlýsingu sem Egill sendi frá sér í dag.
Greint var frá því í morgun að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi úrskurðað að íslenska ríkið þurfi að greiða Agli skaðabætur vegna dóma Hæstaréttar og héraðsdóms. Þar var bloggari sýknaður af skaðabótakröfu vegna myndbirtingar og ummæli sem hann ritaði um Egil á Instagram. Segir í úrskurði Mannréttindadómstólsins að þar hafi verið brotið á stjórnarskrárvörðum rétti Egils til friðhelgi einkalífs.
Segir Egill ljóst að dómur Hæstaréttar standist ekki kröfur Mannréttindasáttmálans um takmörk tjáningarfrelsis.
„Það er ekki þægileg tilfinning að vera saklaus maður sitjandi undir ummælum sem þessum. En ég fagna mjög að það sé til fyrirbæri eins og Mannréttindadómstóll Evrópu,“ segir hann.
„Margir mannréttindalögmenn hafa haft samband við mig og óskað mér til hamingju með dóminn.“