Rafleiðni í Jökulsá á Fjöllum hefur farið hækkandi síðastliðnar tvær vikur. Starfsmenn Veðurstofunnar voru við viðgerðir á mælum við Upptyppinga og tóku handmælingar til að staðfesta sjálfvirk mæligildi. Vakti athygli að áin var óvenjumórauð miðað við árstíma og jarðhitalykt var af ánni.
„Rafleiðnihækkunin var mæld bæði við vatnshæðamæli við Upptyppinga og Grímsstaði. Núverandi gildi við Upptyppinga er 295 míkróSiemens/cm sem er tvöfalt meira en eðlilegt væri fyrir þennan árstíma. Rafleiðni mælingar við Grímsstaði fylgni við mælingar við Upptyppinga,“ segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.
Fram kemur að ekki sé vitað hver upptökin eru en líklega sé um að ræða jarðhitavatnsleka undan jökli. Málinu verði fylgt eftir fyrramálið, þá hugsanlega með flugi yfir svæðið. Sólarhringsvakt Veðustofunnar fylgist vel með þróun yfir nótt. Er fólk hvatt til þess að sýna aðgát við upptök árinnar vegna mögulegs gasútstreymis við upptök.