Ríkið braut á Agli Einarssyni

Egill Einarsson.
Egill Einarsson. mbl.is/Rósa Braga

Íslenska ríkið þarf að greiða Agli Einarssyni skaðabætur vegna dóma Hæstaréttar og héraðsdóms. Þar var bloggari sýknaður af skaðabótakröfu vegna myndbirtingar og ummæla sem hann ritaði um Egil á Instagram. Mannréttindadómstóllinn telur að þar hafi verið brotið á rétti Egils til friðhelgi einkalífs.

Um er að ræða ummæli sem rituð voru um Egil á Instastram af Inga Kristjáni Sigurmarssyni árið 2012. Áður hafði saksóknari fallið frá því að ákæra Egil fyrir nauðgun og önnur kynferðisbrot.

Ríkið greiði 2,2 milljónir í bætur

Íslenska ríkinu er gert að greiða Agli 17.500 evrur, sem svarar til tæplega 2,2 milljóna króna, í miskabætur.

Hæstiréttur staðfesti sýknudóm héraðsdóms árið 2014 í meiðyrðamáli sem Egill Einarsson höfðaði á hendur Inga Kristjáni Sigurmarssyni fyrir ærumeiðandi aðdróttun. Hæstiréttur klofnaði í málinu, en meirihlutinn sagði að tjáning Inga hafi verið innan marka þess frelsis sem honum er tryggt í stjórnarskrá. Þetta fellst Mannréttindadómstóllinn hins vegar ekki á.

Einn af þremur hæstaréttardómurum skilaði hins vegar sératkvæði þar sem hann taldi skrif Inga grófa aðdróttun um að Egill hefði gerst sekur um grafalvarlegt refsivert afbrot. Hann féllst því á kröfu um ómerkingu ummælanna og taldi rétt að Ingi greiddi Agli 200.000 kr. í miskabætur.

Egill höfðaði meiðyrðamál á hendur Inga sem teiknaði ókvæðisorð á mynd af Agli og birti á Instagram. Í stefnunni var þess krafist að Ingi yrði dæmdur til refsingar fyrir ærumeiðandi aðdróttanir með því að hafa breytt ljósmynd af Agli þannig að hann teiknaði kross á hvolfi á enni hans, skrifaði „aumingi“ þvert yfir andlit stefnanda og „fuck you rapist bastard“ sem myndatexta og birti ljósmyndina þannig breytta á Instagram 22. nóvember 2012.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Inga af meiðyrðum í garð Egils í dómi sem féll 1. nóvember 2013. Egill áfrýjaði málinu til Hæstaréttar.

Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, lögmaður Egils, sagði við málflutninginn á Íslandi að Ingi hefði deilt myndinni með rúmlega 100 milljónum notenda á Instagram. „Héraðsdómi tekst að skilja það með þeim hætti að myndin hafi bara verið birt fyrir lokuðum hópi fólks. Það er mér algjörlega óskiljanlegt hvernig héraðsdómur komst að þessari niðurstöðu,“ sagði Vilhjálmur.

Haukur Guðmundsson, lögmaður Inga Kristjáns í héraði, sagði í ræðu sinni að umrædd mynd hefði ekki verið af Agli heldur af Gillz. „Ummæli um skáldaðar persónur varða ekki við lög. Það er ekki hægt að meiða æru Bogomil Font,“ sagði Haukur. Á þetta féllst lögmaður Egils alls ekki. „Hann taldi sig þess umkominn að saka stefnanda [Egil] um nauðgun og kalla hann aumingja og antikrist. Og aftaka hans fór fram án dóms og laga. Og það er enginn annar en stefndi [Ingi Kristján] sem getur borið ábyrgð á birtingu og dreifingu þessarar ljósmyndar.“

Þótti eðlilegt að kalla hann nauðgara þrátt fyrir að vera ekki ákærður

Fimm af sjö dómurum Mannréttindadómstólsins komust að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi brotið gegn ákvæði áttundu greinar laga um mannréttindasáttmála Evrópu sem kveður á um friðhelgi einkalífs. „Sérhver maður á rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta,“ segir í 8. greininni. 

Mannréttindadómstóllinn taldi að íslenskir dómstólar hefðu ekki tekið nægjanlegt tillit til þeirrar staðreyndar að ummælin, sérstaklega „nauðgari“, hafi verið birt aðeins viku eftir að saksóknari hafði ákveðið að falla frá nauðgunarkæru. 

Eins telja dómarar við Mannréttindadómstólinn að ekki hafi verið nægjanlega réttlætt af hálfu íslenska ríkisins að við dómsuppkvaðningu hafi þótt réttlætanlegt að kalla Egil nauðgara af bloggara.

Að öllu þessu gefnu telji dómurinn að ekki hafi verið gætt jafnræðis milli réttar Egils til friðhelgi einkalífs, samkvæmt 8. grein mannréttindasáttmálans, og tjáningarfrelsisákvæðis 10. greinar sömu laga. Sú grein felur í sér rétt til þess að tjá skoðun sína.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert