Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir hefur verið sendur í leyfi frá störfum á Landspítalanum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá spítalanum og er gert „í ljósi heildarhagsmuna“ eins og það er orðað.
Í skýrslu rannsóknarnefndar um plastbarkamálið svokallaða, sem nefnd sérfræðinga skilaði af sér í gær, kom fram margvísleg gagnrýni á störf Tómasar í tengslum við mál Andemariam Teklesenbet Beyene, sjúklings Tómasar. Þar kom þó fram að læknateymi á Karolinska-sjúkrahúsinu hefði blekkt Tómas til að breyta tilvísun, sem var til þess fallin að greiða götu teymisins til að gera aðgerð á sjúklingnum sem stóð á mjög veikum vísindalegum grunni.
Nefndin komst líka að þeirri niðurstöðu að lög hafi verið brotin vegna leyfisskyldrar rannsóknar sem gerð var á Landspítala fyrir fræðigrein sem birtist í vísindaritinu Lancet. Þá hafi barkaþeginn verið dreginn í fjölmiðla til að auglýsa aðgerðina, þrátt fyrir að glíma við erfið veikindi.
Fram kemur í tilkynningunni að Landspítali taki þær ábendingar sem komu fram í skýrslu nefndar sem birt var í gær mjög alvarlega og muni bregðast við þeim. Ákveðið hafi verið að vísa málinu til siðfræðinefndar spítalans, „taka upp samskipti við vísindasiðanefnd varðandi ábendingar skýrslunnar, m.a. um mun á gagna- og sjúklingarannsóknum sem og að taka afstöðu til tillögu skýrslunnar um bætur til ekkju sjúklingsins.“
Fram kemur að að öðru leyti muni spítalinn taka sér tíma til að „rýna skýrsluna gaumgæfilega og bregðast við frekari ábendingum og málum sem upp kunna að koma í þeirri rýni.“
Hvorki náðist í Tómas né Pál Matthíasson forstjóra Landspítalans við vinnslu fréttarinnar.