Karlmaður, sem dæmdur var í fjögurra ára fangelsi í ágúst í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir manndrápstilraun, mun sitja í gæsluvarðhaldi til 10. desember samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar í dag. Þykir eðlilegt með tilliti til almannahagsmuna að maðurinn, Árni Gils Hjaltason, sé í varðhaldi þar til dómur gengur í máli hans fyrir réttinum.
Árni Gils var dæmdur fyrir að stinga mann með hnífi í höfuðið við Leifasjoppu í Breiðholti í Reykjavík í mars. Hann neitaði sök og sagði að þarna hefði orðið slys eða í versta falli sjálfsvörn enda hefði fórnarlambið komið með hnífinn á staðinn. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan 5. mars. Ríkisútvarpið greinir frá þessu.