„Síðasti sólarhringur er búinn að vera tilfinningarússíbani. Þar sem ég sat á Skólaþingi sveitarfélaga í gær fékk ég þær hörmungarfréttir að kær fjölskyldumeðlimur hefði dáið fyrr um daginn þegar ekið var á hann. [...] Ofan í þessar tilfinningar blandast þakklæti. Ég hlaut kosningu sem næsti formaður KÍ.“
Þetta er meðal þess sem kemur fram í bloggfærslu Ragnars Þórs Péturssonar á Stundinni, en hann var kjörinn formaður Kennarasamabands Íslands fyrr í dag.
Frétt mbl.is: Ragnar kjörinn formaður KÍ
Ragnar er þakklátur öllum þeim sem kusu sig og segist ætla að gera sitt allra besta til að sinna starfinu vel. Ragnar hlaut 3.205 atkvæði eða 56,3%. Þrjú voru í framboði til formanns KÍ. Á kjörskrá voru 10.675 og greiddu 5.691 atkvæði, eða 53,3%.
Ragnar segi að upphaflega hafi hann ekki ætlað að bjóða sig fram til formanns. „Ég er nánast fullkomlega sáttur í starfi sem kennari. Ég er hinsvegar algerlega sannfærður um að hér á landi verði að koma til breytingar á menntamálum með þjóðarsátt um bætt kjör kennara – og að traust ríki í garð þeirra bæði á borði og í orði,“ segir í færslu hans.
Meðal brýnna mála sem ráðast þarf í að mati Ragnars er að þróa skólakerfi 21. aldarinnar. „Þeir sem hljóta að leiða þá þróun eru kennararnir. Þannig er það í öllum löndum sem náð hafa árangri. Þannig mun það líka vera hér.“
Ragnar hvetur einnig til aukinna samstöðu meðal félagsmanna KÍ. „Okkar bíða mörg brýn verkefni. Á öllum skólastigum. Verum óhrædd við að taka slaginn – því það skiptir máli að slagurinn sé tekinn. En þjöppum okkur einnig að baki þeim sem eru samherjar okkar í baráttunni fyrir réttlátu og framsæknu skólakerfi í landinu. Í hópi samherja eiga bæði ríki og sveitarfélög heima. Þar þurfa bæði ríki og sveitarfélög að gera betur en hingað til. Svik, rógur og þvinganir eiga hvergi heima í samskiptum. Sérstaklega ekki á milli þeirra aðila sem fara með sum af mikilvægustu hagsmunum þjóðarinnar. Pólitíkin í landinu verður að breytast. Fólk er ekki bara orðið þreytt á henni – hún hefur eyðilagt alltof margt.“
Átta félög eiga aðild að Kennarasambandi Íslands og eru félagsmenn um tíuþúsund talsins. Kjaraviðræður eru meðal stórra verkefna sem fram undan eru, en í tilfelli grunnskólakennara renna núgildandi kjarasamningar út í lok mánaðarins.
Ragnar mun þó ekki taka við formennsku fyrr en í vor þegar Þórður Árni Hjaltested mun láta af störfum formanns á VII þingi Kennarasambandsins sem fram fer í apríl á næsta ári.