Grundvöllur varðandi verndun miðhálendis

Vatnajökulsþjóðgarður.
Vatnajökulsþjóðgarður. mbl.is/Sigurður Bogi

Nefnd um forsendur fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs hefur skilað umhverfis- og auðlindaráðherra lokaskýrslu sinni. Þar er fjallað um mismunandi sviðsmyndir fyrir þjóðgarða á miðhálendinu og frekari verndun innan miðhálendisins. 

Skýrslunni  er ætlað að vera grundvöllur fyrir áframhaldandi umræðu og ákvarðanatöku varðandi verndun miðhálendisins sem nær yfir um 40% af flatarmáli landsins og er eitt stærsta samfellda svæðið í Evrópu þar sem ekki er föst búseta. 

Afmörkun miðhálendisins miðast við línu dregna á milli heimalanda og …
Afmörkun miðhálendisins miðast við línu dregna á milli heimalanda og afrétta sem var aflöguð í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir og aðra hagsmunaaðila við vinnslu svæðisskipulags miðhálendisins sem tók gildi árið 1999. Ljósmynd/Skýrsla

Allar sviðsmyndir vegna þjóðgarðs draga fram að það er viðvarandi áskorun að tryggja sjálfbæra hefðbundna nýtingu sem byggir á óbeinum eignarrétti. Bændur og aðrir vinna að uppgræðslu og landbótum á sumum þessara svæða, í mörgum tilvikum í samræmi við landbótaáætlanir sem vinna þarf þar sem ástand beitilands uppfyllir ekki viðmið í reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.

Engin sviðsmynd felur í sér að þessum óbeina eignarrétti sé ógnað og reynslan af hefðbundinni nýtingu innan Vatnajökulsþjóðgarðs sýnir að umræða um beitarnýtingu hefur ekki verið hávær eða leitt til teljandi ágreinings.

Fjallað er um að stofnun og rekstri þjóðgarðs, sem hefur það hlutverk að auka verndun og tryggja sjálfbæra nýtingu, fylgir kostnaður. Þar kemur til stofnkostnaður vegna til að mynda gestastofa, þjónustumannvirkja á áningarstöðum og innviða til verndar náttúru- og menningarminjum. Rekstrarkostnaður felst meðal annars í landvörslu og kostnaði vegna innviða. 

Í stofnkostnaði Vatnajökulsþjóðgarðs, sem tekinn var sem dæmi í skýrslunni, felast meðal annars fjárveitingar til þjóðgarðsmiðstöðvar á Kirkjubæjarklaustri. Samtals eru 275 m.kr. vegna þeirrar framkvæmdar í stofnkostnaðartölum áranna 2016 og 2017. Til viðbótar því er gert ráð fyrir 175 m.kr. fjárveitingu í fjárlögum fyrir árið 2018 en heildarkostnaður var upphaflega áætlaður 450 m.kr. Auk þess hefur þjóðgarðurinn fengið styrki úr Framkvæmdasjóði ferðamannastað á síðustu árum.

Með þjóðgarðastofnun er ætlunin að um sé að ræða starfsemi sem sérhæfir sig í stjórnun og rekstri þjóðgarða og friðlýstra svæða með áherslu á samspil verndunar og sjálfbærrar nýtingar. Byggja þyrfti upp kjarnastarfsemi sem hefur getu til að fylgja eftir þróun til framtíðar, aukinni áherslu á vernd samhliða sjálfbærri nýtingu sem rúmast getur innan verndarsvæða, svo sem sjálfbærrar beitar, veiða, orkunýtingar, útivistar og ferðaþjónustu auk þróunar í uppbyggingu innviða eins og samgangna.

Skýrsluna má nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert