Kynsjúkdómar fylgja kæruleysi í kynlífi

Vekja þarf fólk til vitundar um að nota verjur í …
Vekja þarf fólk til vitundar um að nota verjur í kynlífi. AFP

Auka þarf fræðslu um kynsjúkdóma og aðgengi að greiningaprófum til að reyna að sporna við mikilli aukningu kynsjúkdóma hér á landi, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis hjá Embætti landlæknis.

Í grein eftir Þórólf sem birtist nýverið í Læknablaðinu kemur fram að á árinu 2016 greindust 27 einstaklingar á hverja 100.000 íbúa, eða alls 89 manns, með lekanda en árin í kringum 1990 greindust aðeins um tveir einstaklingar á ári með sjúkdóminn. Sama þróun hefur átt sér stað með sárasótt en árið 2016 greindust 33 með sárasótt og búist er við að sú tala tvöfaldi sig á þessu ári. Flestir þeirra sem greinast með lekanda og sárasótt í dag eru karlmenn sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum. Á árinu 2016 greindust 28 manns með HIV hér á landi og höfðu ekki fleiri greinst á einu ári síðan faraldurinn hófst. Um þriðjungur þeirra sem greinast með HIV-sýkingu eru karlmenn sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum, þriðjungur gagnkynhneigður og þriðjungur sprautufíklar. Um 2000 manns, flestir á aldrinum 15 til 25 ára, greinast árlega með klamydíu. Nýgengi klamydíu hérlendis er með því hæsta sem þekkist í Evrópu.

Verulegt áhyggjuefni

Erfitt er að segja til um ástæðuna fyrir aukningu kynsjúkdóma en um marga samspilandi þætti er að ræða, eins og vaxandi kæruleysi í kynlífi, skort á notkun smokka, vaxandi fjölda dvalarleyfisumsækjenda og mikinn fjölda ferðalaga Íslendinga erlendis, eins og Þórólfur bendir á í grein sinni.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Hann segir þessa aukningu verulegt áhyggjuefni og að við gætum farið að sjá allskonar birtingarmyndir þessara sjúkdóma sem við viljum ekki sjá. „Allir þessir sjúkdómar eru alvarlegir. Ef þungaðar konur smitast af sárasótt getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir fóstrið,“ segir Þórólfur. Það er hægt að fæðast með sárasótt og HIV. Sárasótt og lekandi geta líka valdið alvarlegum aukaverkunum.

„Til að fólk breyti rétt og passi sig betur í kynlífi þarf að auka fræðslu bæði fyrir ungmenni og þá sem eru í áhættuhópum. Það er líka spurning um aukið aðgengi að greiningarprófum, að við stöndum okkur betur í að reyna að greina þá sem eru í áhættu eða sýktir,“ segir Þórólfur. „Ég held að menn þurfi að líta á lausnina til lengri tíma heldur en í einu átaki. Það þarf að koma til hugarfarsbreyting. Einn af þeim þáttum sem hefur verið bent á hér á landi og erlendis og skýrir þessa aukningu, og skýrir það af hverju fólk er orðið kærulausara í kynlífi, er að það er komin góð lyfjameðferð við HIV-sjúkdómnum sem heldur honum mjög vel niðri. Á meðan menn voru mjög hræddir við HIV pössuðu þeir sig en með betri meðferð verða menn kærulausari og þá blossa hinir sjúkdómarnir upp.“

Bíða nýs ráðherra

Heilbrigðisráðherra skipaði fyrr á árinu starfshóp sem fékk það verkefni að koma með tillögur að aðgerðum til að stemma stigu við útbreiðslu kynsjúkdóma og mun hópurinn væntanlega skila tillögum sínum á næstunni, að sögn Þórólfs sem situr í hópnum. „Ég er ekki viss um að við skilum þessari skýrslu fyrr en það er kominn nýr heilbrigðisráðherra. Það þarf að fylgja henni eftir af fullum þunga og það er hlutverk stjórnvalda.“

Ein milljón smita daglega

Aukning á kynsjúkdómum er alþjóðleg þróun, að sögn Þórólfs og hefur Ísland verið á svipuðu róli í tíðni kynsjúkdóma og hin Norðurlöndin.

Í grein Þórólfs í Læknablaðinu segir; „Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) telur að um ein milljón einstaklinga í heiminum öllum fái kynsjúkdóm á hverjum degi og þar af eru flestar sýkinganna einkennalausar eða einkennalitlar. Um 30 sýklar (bakteríur, veirur og sníkjudýr) geta smitast með kynmökum en flestar sýkingarnar eru af völdum sárasóttar, lekanda, klamydíu, lifrarbólgu B, HIV, HPV, herpes simplex og/eða trichomonas. Af þeim er talið að árlega greinist 131 milljón einstaklinga með klamydíu, 78 milljónir með lekanda, 5,6 milljónir með sárasótt og 143 milljónir með trichomonas.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka