„Þetta er svartur blettur á samfélaginu“

Enn er langt í langt í baráttunni við kynbundna mismunun.
Enn er langt í langt í baráttunni við kynbundna mismunun. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Enn er langt í land í baráttunni við að uppræta kynbundna mismunun á vinnumarkaði. Þetta kemur fram í ályktun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands. Þar er verkalýðshreyfingin jafnframt hvött til þess að styðja, með öllum ráðum, einstaklinga sem stíga fram og segja frá hvers konar ofbeldi og einelti á vinnustað. Ofbeldi af öllu tagi sé ólíðandi á vinnustað og slíkt verði að uppræta.

Miðstjórnin fangar umræðunni að undanförnu þar sem mikill fjöldi kvenna hefur stigið fram undir yfirskriftinni #metoo og mótmælt kynferðislegu áreiti og ofbeldi í öllum myndum og á öllum sviðum samfélagsins. „Þetta er svartur blettur á samfélaginu og enn eitt dæmið um kynbundna mismunun sem uppræta ber með öllum tiltækum ráðum,“ segir í ályktuninni.

Þar segir jafnframt að verkalýðshreyfingin hafni allri mismunun og órétti á vinnumarkaði, enda byggi tilvist hennar á því. „Í því felst að verkalýðshreyfingin hafnar hvers konar mismunun á grundvelli kynferðis, þ.m.t. kynbundnum launamun og einelti og kynferðislegu ofbeldi á vinnustað.“

Barátta verkalýðshreyfingarinnar fyrir bættum kjörum og réttindum launafólks á fjölmörgum sviðum hafi skilað miklum árangri í gegnum tíðina, meðal annars með reglum um vinnuvernd, leiðbeiningum til trúnaðarmanna um meðferð slíkra mála og fleira. „Þrátt fyrir það verður að viðurkenna að enn er langt í land. Það gildir um kynbundna mismunun á vinnumarkaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert