Kveinkar sér ekki yfir málssókn

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður.
Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það er eins og það eigi að þagga niður í gagnrýni minni á Hæstarétt með þessum hætti. Ég á nú ekki von á að það beri mikinn árangur,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi dómari við Hæstarétt, í samtali við mbl.is vegna meiðyrðamáls sem Benedikt Bogason hæstaréttardómari hefur höfðað gegn honum.

Tilefnið eru ummæli í nýrri bók Jóns Steinars Með lognið í fangið - Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“ sem kom út á dögunum sem Benedikt vill dæmd ómerk. Einkum ummæli um dóm Hæstaréttar í máli ákæruvaldsins gegn Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra. Fer Benedikt fram á tvær milljónir króna í miskabætur.

Rétt að ræða þjóðfélagsvald Hæstaréttar

„Hæstiréttur Íslands er auðvitað stofnun sem fer með mjög þýðingarmikið þjóðfélagsvald sem beinist gegn borgurum landsins og meðferð hans á því valdi hlýtur að vera til umræðu eins og meðferð á öðru þjóðfélagsvaldi. Ég hef tekið það til umræðu í þessari bók og rökstutt ályktanir mínar um það að bæði þessi dómur og aðrir dómar standist ekki. Í þessu tilfelli tala ég um dómsmorð og sýni fram á það með ítarlegum rökstuðningi að dómurinn stadist ekki,“ segir Jón Steinar. Hann bætir því við að hann ætli auðvitað dómurum í Hæstarétti að þeir viti hvað þeir séu að gera.

Frétt mbl.is: Höfðar mál gegn Jóni Steinari

„Ég skilgreini hugtakið dómsmorð, sem er þekkt hugtak í lögfræðilegum skrifum, og tek upp skilgreininguna í bókinni og þannig sjá allir hvað ég er að fara,“ segir Jón Steinar. Þarna sé einfaldlega verið að fjalla um dóma Hæstaréttar og það sem hann segi í þeim efnum eigi auðvitað við um alla dómarana fjóra sem myndað hafi meirihluta í málinu.

„Þeir sem vilja freista þess að taka afstöðu til málsins sjálfir, ég get ekki bent þeim á annað en að lesa bara í bókinni ítarlegan rökstuðning minn fyrir gagnrýninni á þennan dóm og leggja þá bara mat á það sjálfir hvort það sé eitthvað hæft í þeim rökstuðningi og þeim ályktunum sem ég dreg. Þá geta menn til dæmis spurt sjálfa sig að því hvers vegna rétturinn taldi sig þurfa að breyta forsendum dómsins eftir á eins og hann gerði eins og ég lýsi í bókinni. Er það það sem átt er við? Að þetta hafi verið gert af gáleysi? Þeir hafi ekki vitað að þeir hafi verið að dæma manninn fyrir annað en það sem ákæran hljóðaði upp á? Ég bara dreg mínar ályktanir af þessu á þann veg að dómararnir hafi vitað hvað þeir voru að gera.“

Vill kannski auka útbreiðslu bókarinnar

Jón Steinar segir að hann kveinki sér ekki yfir því þó höfðað sé meiðyrðamál gegn honum. Það sé réttur Benedikts eins og annarra að gera það kjósi hann það þó nærtækara hefði kannski verið að svara þessu einfaldlega efnislega. „En kannski vill hann auka útbreiðsluna á þessari bók minni og þá hef ég ekkert við það að athuga,“ segir hann kíminn.

Frétt mbl.is: Reynir á stoðirnar

„Ég hef nú beinlínis kallað eftir því í gagnrýni minni á dómstóla að menn andmæli mér ef þeir telji mig fara með rangt mál. Ekki kveinka ég mér yfir því þó menn geri það. Jafnvel þó það sé á þennan hátt þó það sé kannski ekki mjög klókt af honum. Ég ætla þó ekki að gerast neinn dómari í þeim efnum. Það verður bara fjallað um þetta fyrir dómi og ég hvet bara alla til þess að fylgjast með þeim málaferlum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert