Singles Day, tilboðsdagur fyrir netsölu, mun eflaust reynast einhverjum hér á landi ástæða til að draga fram greiðslukortið og ganga frá kaupum með nokkrum músarsmellum. Ólíkt Black Friday og Cyber Monday, sem líkt og nöfnin gefa til kynna ber upp á föstudag og mánudag eftir þakkargjörðarhátíð, er Singles Day bundinn fastri dagsetningu, 11. nóvember.
Dagsetningin sú á raunar sinn þátt í því að deginum, sem á sér kínverskar rætur, var komið á fót. Kínverjar spá mikið í númerafræði og talan 11.11. samanstendur af tölustafnum einum sem gerði daginn að degi einhleypra. Kauphlið dagsins kviknaði þó ekki fyrr en 2009 er kínverska netverslunin Alibaba gerði daginn að stórútsöludegi netverslana sinna, sem eins konar svar við svörtum föstudegi Bandaríkjamanna.
AFP-fréttastofan hefur eftir forsvarsmönnum Alibaba að sala á Singles Day í netverslun fyrirtækisins hafi í fyrra numið andvirði 17,8 milljarða dollara og hafi aukist um 32% frá árinu 2015.
Singles Day hefur ekki síður en svarti föstudagurinn reynst nokkrum kaupmönnum hér á landi ástæða til þess að bjóða upp á sólarhringstilboð. Brynja Dan Gunnarsdóttir, markaðsstjóri S4S, er prímusmótorinn í Singles Day íslenskra kaupmanna, en hér á landi er hann þó ekki tengdur einhleypum heldur hefur fengið heitið stóri netverslunardagurinn og verður á morgun haldinn í þriðja sinn. Brynja deilir færslu á facebooksíðu sinni þar sem hún bendir á 24 íslenskar vefverslanir sem taka þátt í stóra netverslunardeginum þetta árið.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, telur stóra netverslunardaginn kominn til að vera. „Alveg á sama hátt og Black Friday hefur rutt sér til rúms,“ segir hann. „Ég tel alveg augljóst að öll þessi alþjóðlegu „trend“, ef svo má að orði komast, eru að ryðja sér til rúms hér á landi og það er engin ástæða til að ætla að það gerist ekki líka með Singles Day.“
Hann hafi sagt það sama þegar menn voru að velta fyrir sér líkum á að svarti föstudagurinn næði vinsældum hér. „Ég taldi það líklegt fyrir tveimur árum, sem gekk eftir. Hann sló í gegn í fyrra og ég held að hann geri það aftur í ár.“
Andrés segir það ekki síst hafa verið kost við svarta föstudaginn að hann hafi dreift jólaversluninni meira en ella, þar sem hann beri upp á síðasta föstudag í nóvember.
Spurður hvort Íslendingar kaupi ekkert nema það sé á tilboði segir hann landsmenn vissulega tilboðsdrifna. „Allt svona hefur áhrif og þegar þessir stóru dagar eru hefur það gífurleg áhrif. Þegar það er 20% afsláttur af öllu eins og gerist stundum er fólk líka að gera betri kaup á megninu af vöruframboðinu í búðinni og það er augljóst og skiljanlegt út frá hagsmunum neytenda að þeir grípi slík tækifæri.“
Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, segir samtökin reyna að benda fólki á að vera skynsamt í fjármálum. „Við erum mjög oft að kaupa hluti sem við þurfum ekki en langar samt í,“ segir hún. „Við virðumst vera að taka inn Black Friday, Singles Day og aðrar slíkar kauphefðir og Neytendasamtökin hafa þess vegna oft bent á andsvarið við þessum tilboðsdögum, sem er Buy nothing day, eða kauplausi dagurinn.
Það voru kanadísk samtök sem komu kauplausa deginum á fót, en hann er 24. nóvember ár hvert og að sögn Brynhildar hugsaður sem andsvar við neysluæðinu. „Við búum vissulega í hagkerfi sem er drifið áfram af einkaneyslu, en það skiptir máli ef við viljum hugsa um umhverfismálin líka að að íhuga hvað við kaupum og vera ekki að kaupa óþarfa,“ segir hún.
Það sé þó vissulega fagnaðarefni að verslun gangi vel og fólk versli hér heima. „Það er ýmislegt jákvætt við það, en maður þarf samt að vera gagnrýninn og fylla ekki fataskápinn af fötum sem er svo farið með í Rauða krossinn áður en árið er liðið,“ segir Brynhildur. Þá sé betra að gefa frekar Rauða krossinum strax andvirði flíkurinnar.
Óneitanlega sé hægt að gera góð kaup á tilboðum og útsölum og spara þannig í jólagjafakaupunum, en það borgi sig engu að síður að hafa í huga hvað maður sé að kaupa og áhrif kaupanna. „Það er tilhneiging þegar það eru tilboð og vörurnar ódýrar að kaupa eitthvað sem okkur vantar ekkert endilega og við hefðum ekki keypt ef þetta hefði verið dýrara,“ segir hún. „Það segir manni svo kannski að mann vantaði ekki þennan hlut.“
Ekki hafa allar íslenskar verslanir fyrir því að þýða erlend heiti tilboðsdaga sem þær nýta yfir á íslensku. Eiríkur Rögnvaldsson, íslenskuprófessor við Háskóla Íslands, segir vissulega mega líta á slíkt sem lögbrot líkt og erlend heiti fyrirtækja eða auglýsingar á erlendum málum.
„Það er hins vegar kannski ekki skynsamlegasta leiðin til að ræða svona,“ segir hann. Það er hluti af svo miklu stærra máli hvernig enska flæðir yfir svo mörg svið án þess að menn virðist gæta að sér.“
Eiríkur segist efast um að einhver ætli sér að spilla íslenskunni, gera lítið úr henni eða veikja stöðu hennar. „Þetta er annars vegar bara hugsunarleysi og hins vegar mismunandi skoðanir á því hvað skipti máli og hvað ekki. Ég held að eftir því sem enskan er meira áberandi í umhverfi okkar tökum við minna eftir henni og því auðveldara verður fyrir hana að leggja undir sig ný og ný svið.“
Eitt og sér drepi það ekki íslenskuna að einhver fyrirtæki taki sér ensk nöfn, viðburðir hafi ensk heiti eða eitthvað sé auglýst á ensku. „En það er hluti af miklu stærra máli og dropinn holar steininn.“