Engin niðurstaða náðist á kjarafundi Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Icelandair sem fram fór hjá ríkissáttasemjara í dag.
„Þetta er einn fundur af fleirum sem standa yfir. Það eru lausir kjarasamningar og það er verið að reyna að semja,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við mbl.is.
Samningur Félags íslenskra atvinnuflugmanna við Icelandair rann út 30. september, en deilunni var vísað til ríkissáttasemjara 26. september og var fyrsti sáttafundur haldinn 2. október. Fundurinn í dag var fjórði fundur samningsaðila.
Guðjón segir fundinn hafa gengið ágætlega fyrir sig. Engin niðurstaða sé hins vegar komin í samningaviðræðurnar. „Það er í sjálfu sér ekkert að frétta af viðræðunum að öðru leyti nema að þær standa yfir og í þeim er eðlilegur gangur.“
Alls eru á milli 800 til 900 virkir félagar í Félagi íslenskra atvinnuflugmanna. Þar af störfuðu 530 hjá Icelandair í sumar.
Búast má við því að ríkissáttasemjari muni boða til næsta fundar innan tveggja vikna, líkt og lög kveða á um, nema eitthvað komi upp hjá samningsaðilum sem þyki gefa ástæðu til að taka upp þráðinn að nýju.