Rúta með 20 manns innanborðs er í vanda við Kleifarvatn og hafa björgunarsveitir, slökkvilið og lögregla verið kölluð á staðinn.
Aftakaveður er á svæðinu og rútan, sem er kyrrstæð í nágrenni Sveifluháls, fýkur til og mjakast þannig út af veginum.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Hafnarfirði eru viðbragðsaðilar nú komnir á staðinn og ekkert er sagt ama að farþegunum sem enn eru um borð í rútunni.
Ranghermt var í upprunalegu fréttinni að umferðarslys hefði orðið Kleifarvatn.
Uppfært 22.15
20 manns, 19 farþegar og ökumaður voru í rútunni, sem valt við það að renna út af veginum. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu þurfti að mynda skjól með dælubíl slökkviliðs til að hægt væri að ferja fólkið úr bílnum. Það er nú búið og verið er að ferja fólkið í burtu.
Engin meiðsl urðu á fólki, en farið verður með hópinn í björgunarsveitarhúsið í Hafnarfirði þar sem boðið verður upp á áfallahjálp.
Að beiðni lögreglu var Krísuvíkurvegi lokað eftir atvikið þar til að veður og aðstæður skána.