„Katrín sýnir kjark að hefja viðræður við B og D. Hún er greinilega mikilhæfur stjórnmálaleiðtogi, það hefur margan grunað en sést best þessa daga þegar vegið er að persónu hennar. Því tekur hún með jafnaðargeði.“
Þetta segir Svavar Gestsson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Alþýðubandalagsins, á facebooksíðu sinni og vísar þar til yfirstandandi viðræðna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, formanns flokksins, við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn um mögulegt stjórnarsamstarf flokkanna.
Svavar segir að Katrínu og VG sé beinlínis skylt að kanna samstarf við flokkana tvo eftir að tilraun til þess að mynda ríkisstjórn fjögurra flokka strandaði í kjölfar þingkosninganna í lok október og eftir að Samfylkingin hafi neitað að láta reyna á viðræður við Sjálfstæðisflokkinn með VG. Gagnrýnir hann enn fremur ósanngjarnar árásir á Katrínu.
„Árásirnar á Katrínu eru einkar ósanngjarnar en þær eru greinilega grimmastar frá einum og einum samfylkingarmanni. Auðvitað eru margir stuðningsmenn og flokksmenn VG hugsi yfir stöðunni,“ segir Svavar en hvetur fólk í VG og Samfylkingunni til þess að spara stóru orðin hvert um annað þar til það skýrist hvað komi út úr viðræðunum.
„Er annars komin stjórn í Þýskalandi? Þar voru kosningar í september. Var ekki stjórnin sem enn situr hér mynduð fyrr á þessu ári eftir ellefu vikna stjórnarkreppu? Það er engin ástæða til að láta eins og himnarnir séu að hrynja yfir okkur. Er einhver annar kostur en B og D í boði? Tilboð um minnihlutstjórn er markleysa enn sem komið er.“
Fram hefur komið að búast mætti einkum við andstöðu við mögulegt samstarf VG við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn úr þeim armi flokksins sem kenndur væri við Svavar og dóttur hans Svandísi Svavarsdóttur, þingmann VG, en eins og fram hefur komið tekur Svandís þátt í viðræðunum við flokkana tvo ásamt Katrínu.
Fleiri áhrifamenn innan VG hafa talað með jákvæðum hætti að undanförnu um mögulegt stjórnarsamstarf VG, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins og þar á meðal Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, og Björn Valur Gíslason, fyrrverandi varaformaður flokksins.