Þingmenn Vinstri grænna kusu í dag með því að hefja formlegar viðræður við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn eftir atkvæðagreiðslu á þingflokksfundi núna rétt í þessu. Tveir þingmenn flokksins voru mótfallnir því að hefja formlegar viðræður og vísuðu til þess að ekki væri traust til Sjálfstæðisflokksins.
Í gær fundaði þingflokkurinn og óskaði Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður flokksins, eftir atkvæðagreiðslu um að hefja formlegar viðræður við Framsókn og Sjálfstæðisflokk eða hvort hverfa skyldi frá því.
Í samtali við mbl.is segir Rósa að hún hafi með þessu staðið með sinni sannfæringu og með henni kæmi afstaða hennar augljóslega fram. „Ég ber mjög mikið traust til forystu Vinstri-grænna og Vinstri-grænna sem pólitískrar hreyfingar. Ég ber samt ekki traust til viðmælendanna og þá er ég að tala um Sjálfstæðisflokkinn,“ segir Rósa.
Ásamt Rósu kaus Andrés Ingi Jónsson, þingmaður flokksins, gegn því að hefja formlegar viðræður.
Þingmannafjöldi þessara þriggja flokka er samtals 35, en séu tveir þingmenn mótfallnir stjórninni væru 33 sem styddu stjórnina og 30 í stjórnarandstöðu. Spurð hvort hún muni styðja stjórn þessara þriggja flokka segir Rósa að það sé málefni sem verði að taka á þegar þar að komi.