„Svona úr kostar ekki mikið,“ segir lögreglustjórinn á Suðurnesjum í færslu á Facebook og hvetur þar foreldra til að kaupa GPS-úr fyrir yngstu börnin.
Í færslunni segir að í síðustu viku hafi það gerst að átta ára drengur hafi ekki skilað sér heim fyrr en seint um kvöld. „Lögregla og allir í fjölskyldu hans voru farnir að leita að honum, allir fjölskyldumeðlimir orðnir hræddir um drenginn,“ segir í færslu lögreglunnar.
Sá sem skrifar færsluna fyrir hönd lögreglustjórans segist sjálfur hafa keypt staðsetningarúr fyrir yngsta fjölskyldumeðliminn. „Það besta er að barnið getur hringt úr því, þú getur hringt í barnið þitt og í því er GPS sem gerir þér kleift að sjá alltaf hvar barnið þitt er,“ segir í færslunni.
Tekið er fram að ekki sé um auglýsingu að ræða, heldur ábendingu til foreldra.