Sigurför Nonna stendur enn

Nonnahús á Akureyri er fjölsótt. Fyrir helgi kom þessi hópur …
Nonnahús á Akureyri er fjölsótt. Fyrir helgi kom þessi hópur frá Þýskalandi, en þar eru Nonnabækurnar enn lesnar. Ljósmynd/Hörður Geirsson

„Vinsældir Nonna haldast enn og sú upphefð kemur ekki síst að utan. Hingað í Nonnahús koma á ári hverju um það bil 5.000 gestir frá útlöndum, einkum Þýskalandi, gagngert til þess að kynna sér sögusvið bóka Nonna sem selst hafa í milljónum eintaka,“ segir Haraldur Þór Egilsson, forstöðumaður Minjasafnsins á Akureyri.

Næstkomandi fimmudag, 16. nóvember, verður þess minnst að 160 ár eru liðin frá fæðingu rithöfundarins Jóns Sveinssonar, Nonna. Í Nonnahúsi í Innbænum á Akureyri verður sérstök dagskrá af því tilefni og þar eru heimatökin hæg enda er Nonnahús, æskuheimili Nonna, í garði Minjasafnsins. Sömuleiðis verður tímamótanna minnst í Köln í Þýskalandi, en þar í borg dvaldist Nonni til dánardægurs haustið 1944, eftir að hafa farið um lönd og álfur og borið hróður heimalands síns með bókum sínum, en sú fyrsta kom út árið 1913, en alls urðu þær þrettán.

„Nonni hélt utan árið 1870, aðeins tólf ára gamall og til sanns vegar má færa að sú vegferð standi enn. Samfelld sigurför.

Bækur Nonna njóta enn vinsælda og eru lesnar af nýjum kynslóðum til dæmis í Norður-Evrópu, enda hefur þýska forlagið sem á höfundarréttinn endurútgefið bækurnar reglulega og haldið nafninu þannig á lofti,“ segir Haraldur.

Endurútgáfa bókanna er brýn

Bækur Nonna hafa verið þýddar á um 40 tungumál.
Bækur Nonna hafa verið þýddar á um 40 tungumál. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson


„Hjá þýsku ferðaskrifstofunni Studious er heimsókn í Nonnahús fastur liður í Íslandsferðum og núna rétt fyrir helgina kom til dæmis einn hópur á þeirra vegum til okkar,“ segir Haraldur. „Margir Þjóðverjar – og raunar fleiri – hafa sagt okkur að Nonnabækurnar hafi orkað mjög sterkt á sig í æsku og þá hafi þeir einsett sér að koma til Íslands. Þá lifa sögur alltaf meðal Japana, en þangað fór hann til fyrirlestra og bækur hans eru enn gefnar út þar í landi.“

Árið 2012 kom út ævisaga Nonna sem Gunnar F. Guðmundsson skráði og segir Haraldur Þór að áhugi Íslendinga á höfundinum hafi aukist eftir það. Nú sé reyndar orðið brýnt að endurútgefa bækurnar, sem Nonnahús á íslenska útgáfuréttinn að. Síðast voru þær gefnar út fyrir um áratug í endursögn – og svo eru til enn eldri útgáfur sem Freysteinn Gunnarsson þýddi úr þýsku.

Sveipaði Ísland ævintýraljóma

Jón Sveinsson fæddist á Möðruvöllum í Hörgárdal hinn 16. nóvember 1857, en fluttist á áttunda ári með sínu fólki til Akureyrar þar sem fjölskyldan settist að. Að föður Nonna látnum varð móðir hans að leysa fjölskylduna upp og þekktist boð fransks aðalsmanns sem vildi kosta nám tveggja íslenskra drengja til náms. Því varð úr að í ágúst hélt Nonni handan um höf hvar hann dvaldist upp frá því, mest í Frakklandi, Belgíu og Hollandi. Í háskólum las hann bókmenntir og guðfræði, en árið 1878 gekk Nonni í jesúítaregluna og vígðist til prests. Hann skóp sér nafn með bókum sínum – þar sem hann sveipaði Ísland ævintýraljóma. Bækurnar hafa verið þýddar á um 40 tungumál og gefnar út í milljónum eintaka. Sjónvarpsþættirnir Nonni og Manni sem gerðir voru um 1990 byggjast á efni þeirra.

Haraldur Þór Egilsson.
Haraldur Þór Egilsson. Ljósm/Hörður Geirsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert