Það var tilfinningaþrungin stund í Egilsbúð á Norðfirði í gærkvöldi þegar heimildarmynd um snjóflóðin í Neskaupstað árið 1974 var sýnd fyrir fullu húsi. Myndin heitir Háski - Fjöllin rumska og er framleidd af Þórarni Hávarðssyni sem er Norðfirðingur og var 12 ára þegar snjóflóðin mannskæðu féllu.
Í myndskeiðinu má sjá brot úr myndinni þar sem rætt er við fólk sem var á staðnum en einnig er sýnt frá frumsýningunni í gær og rætt við sýningargesti.
Myndin verður sýnd í Laugarásbíói á næstunni en hægt er að kynna sér hana betur hér.
„Þetta var erfitt verkefni, það tók á að taka viðtölin. Sitja með fólkinu og reyna að halda andlitinu,“ sagði Þórarinn Hávarðsson framleiðandi myndarinnar, í samtali við Morgunblaðið.
Þórarinn er Norðfirðingur og var 12 ára þegar snjóflóðin mannskæðu féllu. Atburðirnir standa honum því nærri. Hann gerði heimildarmynd um sjóslysin í Vöðlavík með góðum hópi fólks fyrir nokkrum árum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
„Eftir það höfum við oft verið spurðir að því hvað við ætluðum að gera næst. Alltaf kom hugmyndin um snjóflóðin upp. Eftir miklar vangaveltur ákváðum við að skoða málið. Ég vissi frá upphafi að þetta yrði mikið og viðkvæmt viðfangsefni sem þyrfti að nálgast af virðingu og nærgætni,“ segir Þórarinn.