Þrjár ástæður til að hefja viðræður

Kolbeinn Óttarsson Proppé og Bjarni Benediktsson á Alþingi fyrr í …
Kolbeinn Óttarsson Proppé og Bjarni Benediktsson á Alþingi fyrr í haust. mbl.is/Eggert

„Maður veit ekki hvort það næst ásættanleg niðurstaða fyrr en það kemur niðurstaða,“ segir Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Hann er þeirrar skoðunar að VG eigi að láta reyna á myndun ríkisstjórnar með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Um það munu vera skiptar skoðanir innan þingflokksins.

Kolbeinn segir að þrennt komi til sem móti afstöðu hans til málsins. Í fyrsta lagi hafi flokkurinn samþykkt stjórnmálaályktun landsfundar sem kveðið hafi á um að flokkurinn vildi leiða ríkisstjórn. Í öðru lagi hafi því margsinnis verið lýst yfir að málefnin ættu að ráða för við myndun nýrrar ríkisstjórnar. Þriðja ástæðan fyrir afstöðu Kolbeins er að flokkurinn hafi sagt með mjög skýrum hætti fyrir kosningar að flokkurinn myndi ekki útiloka neinn fyrirfram.

Hann segir að ekkert hafi komið fram sem gangi í berhögg við þessar ástæður. „Fyrir kosningar sögðum við að við útilokuðum ekki neinn. Það væri óheiðarlegt að koma eftir kosningar og útiloka Sjálfstæðisflokkinn,“ segir Kolbeinn í samtali við mbl.is.

Hann segist fylgja formanni flokksins, Katrínu Jakobsdóttur, að málum, en hún hafi talað fyrir því að láta reyna á ríkisstjórn þessara þriggja flokka með formlegum hætti. „Mér finnst einboðið að fara í þessar formlegu viðræður, eins og formaðurinn hefur talað fyrir, til að sjá hvort það kemur ásættanleg niðurstaða. Það er erfitt að taka afstöðu til einhvers sem þú veist ekki hvað er.“

Spurður hvort þingmönnum VG sé stefna Sjálfstæðisflokksins ekki ljós segir Kolbeinn að svo sé vissulega. Hann bendir hins vegar á að stefnur flokkanna hafi fengið mismikið fylgi og þingmenn geri sér grein fyrir að allir þurfi að gefa eftir til að hægt sé að mynda ríkisstjórn. Taka verði afstöðu til niðurstöðu slíkra viðræðna þegar þar að komi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert