Björgunarsveitin Víkverji fann um níuleytið í kvöld fimm ferðalanga sem villst höfðu á Sólheimasandi. Þegar fólkið hringdi í neyðarlínuna fyrr í kvöldið hafði það verið týnt í um þrjá klukkutíma. Björgunarsveitarmenn gátu staðsett fólkið og vel gekk að finna hópinn þegar á staðinn var komið.
Um var að ræða tvo hópa, Kanadamenn og Singapúra, sem hist höfðu á sandinum og ákveðið að ganga saman. Fólkinu var orðið kalt þegar það fannst og fékk að ylja sér í bíl björgunarsveitarmanna áður en förinni var haldið áfram. Samkvæmt upplýsingum björgunarsveitarmanni á vettvangi var fólkið mjög þakklátt.
Ekki er langt síðan bandarískur ferðamaður fannst látinn við Jökulsá á Sólheimasandi og samkvæmt upplýsingum frá Víkverja eru nú allar tilkynningar um týnda einstaklinga teknar mjög alvarlega, jafnvel þó að fólk hafi einungis verið týnt í skamman tíma.