Formenn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna hófu stjórnarmyndunarviðræður með formlegum hætti í morgun. Bjarni Benediktsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Katrín Jakobsdóttir, ásamt fylgdarfólki, hittust klukkan hálftíu í húsakynnum Alþingis. Létt var yfir formönnunum.
Óformlegar viðræður hafa staðið yfir síðustu daga en þingflokkarnir samþykktu í gær að hefja formlegar viðræður. Tveir þingmenn Vinstri grænna, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, greiddu atkvæði gegn því að fara í viðræður við þessa flokka.
Forseti Íslands hefur sagt að hann búist við að fyrir lok vikunnar komi í ljós hvort flokkunum tekst að mynda ríkisstjórn.