Ísland hefur mikið að vernda vegna sérstöðu sinnar sem einangruð eyja og má halda í það sem að aðrir eru búnir að tapa. Þetta segir Vilhjálmur Ari Arason, heimilislæknir og sérfræðingur á slysa- og bráðamóttöku Landspítalans, sem er ósáttur við þann úrskurð EFTA-dómstólsins að innflutningstakmarkanir íslenska ríkisins á ferskum matvælum séu ólöglegar. Málið var höfðað af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gegn íslenska ríkinu og féll dómur í málinu í morgun.
„Við erum með mikla sérstöðu í íslenskum landbúnaði hvað við notum lítið af sýklalyfjum og erum með þeim lægstu í heiminum hvað þetta varðar,“ segir Vilhjálmur Ari. Allt þetta er tapað ef við erum að fá bakteríurnar bara í pakka til okkar.“
Íslensk löggjöf felur í sér innflutningstakmarkanir á fersku kjöti, unnu sem óunnu, kældu sem frosnu, sem og innmat og sláturúrgangi hvort sem um ræðir svína-, nauta-, lamba-, geita- eða alifuglakjöt eða kjöt af villtum dýrum og ýmsum mjólkurvörum. Verða innflytjendur samkvæmt núgildandi lögum að sækja um leyfi og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar.
Vilhjálmur Ari Arason segir mikla sýklalyfjanotkun í erlendu kjöti ástæðu þess að bakteríur á borð við klasakokka þrói með sér sýklalyfjaónæmi sem geti valdið margvíslegum vanda. Vissulega hafi dregið úr sýklalyfjanotkun í eldi víða, en hún og ónæmið sé engu að síður til staðar og að hefta þurfi útbreiðslu hennar hingað.
„Eitt einfalt dæmi eru Danir, sem hafa verið duglegir að nota sýklalyf í sinni svínarækt,“ segir Vilhjálmur Ari. „Þar er mjög hátt hlutfall af sýklalyfjaónæmum klasakokkum, það er talað um að hlutfallið sé allt að 30% í kjöti sem búið er að slátra.“ Þá hafi rannsóknir sýnt að allt að 30% af danska kjötinu sé smitað af svo nefndum samfélagsmósum.
„Sum svæði hafa verið að glíma við að allt að 20-30% og jafnvel 40% af klasakokkum séu ónæmir fyrir sýklalyfjum,“ bendir hann á og og segir klasakokkasýkingu vera eina algengustu sýkingu í sárum, sem hann sjái m.a. í starfi sínu á slysa- og bráðadeild. „Þetta sýnir hvað við erum að nálgast hættulegt landslag hér.“
Vilhjálmur Ari segir að öll hrávara sé vissulega menguð af bakteríu, en að málið vandist ef að bakterían er ónæm fyrir sýklalyfjum. „Bakteríuflóran sem er í kjötinu berst inn á eldhúsborðið og svona flórubakteríur eru mjög fljótar að festast í okkar flóru,“ segir hann. Vandans verði hins vegar ekki vart fyrr en sýking komi í sár eða að veikindi komi upp. „Þá eru þessir stofnar þarna til staðar og þá byrjar vandamálið.“
Hærra hlutfall af bakteríum sem séu ónæmar fyrir sýklalyfjum á borð við pensilín séu byrði á samfélögum þar sem að vandinn sé til staðar. „Þetta er þróun sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO óttast, af því að það eru alltaf að verða til fleiri og fleiri stofnir og ónæmið að verða meira.“
Ísland standi sig vel í því að nota lítið af sýklalyfjum í landbúnaði og það sé ein af þeim röksemdafærslum sem eru gefnar fyrir því að við höfum sloppið tiltölulega vel við þessar ónæmu bakteríur í búfénaði.
„Ef við fáum hins vegar bakteríur og flytjum þær í tonnavís inn í eldhúsið hjá okkur, þá er þetta ekki lengur spurning um hvort að við mannfólkið notum mikið af bakteríum í landbúnaði, heldur erum við að fá þetta á færibandi og þá er þetta komið út í okkar landbúnað áður en við vitum af.“
Sjálfur kveðst Vilhjálmur Ari óttast meira en Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir að kjötinnflutningurinn sé raunveruleg ógn. „Hann er embættismaður og tónar niður sínar áhyggjur,“ segir hann.
„Við erum þó sammála um það að öllu eftirliti hafi verið ábótavant. Það er misskilningur að við séum stikkfrí ef við flytjum bara inn frosið kjöt, þó að það takmarki útbreiðslu í flutningi og í kjötborði. Það þarf eftir sem áður að rannska og taka miklu fleiri sýni en gert er í dag og Matís og aðrar stofnanir eru ekki í stakk búnar að fylgjast með þessu.“