„Ef þú ætlar að hlaupa um fjöll og firnindi með tjaldið á bakinu, þá ertu ekki í mjög vondum málum,“ segir Kjartan Þorkelsson, lögreglustjóri á Suðurlandi. Ný sameiginleg lögreglusamþykkt fyrir sveitarfélögin í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi tók gildi í gær. Þar er kveðið á um að við alfaraleið í byggð sé óheimilt að gista í tjöldum, tjaldvögnum eða svefnbílum af einhverju tagi, utan skipulagðra tjaldsvæða.
Í samþykktinni segir að orðið „byggð“ merki þau svæði sem ekki falla undir hugtakið „óbyggðir“, sem séu þau landsvæði þar sem fólk hafi ekki fasta búsetu og mannvirki séu ekki til staðar eða lítt áberandi. Þannig skerðir ný lögreglusamþykkt ekki frelsi fólks til þess að tjalda í náttúrunni, fjarri mannabyggðum.
„Það er verið að taka svolítið á þessum svefnbílum. Það hefur ekki verið fjallað mikið um þá í lögreglusamþykktunum hingað til og það er verið að bregðast við þessu. Við munum reyna að sinna þessu eins og öðru eftirliti og vísa fólki inn á þjónustusvæði,“ segir Kjartan.
Kjartan segir að sameiginleg lögreglusamþykkt allra sveitarfélaganna í umdæminu muni einfalda störf lögreglunnar á Suðurlandi mikið, en áður voru mismunandi samþykktir hjá sveitarfélögunum fjórtán.
Samþykktin gildir fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð, Skaftárhrepp, Mýrdalshrepp, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Ásahrepp, Sveitarfélagið Árborg, Flóahrepp, Skeiða- og Gnúpverjahrepp, Hrunamannahrepp, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshrepp, Hveragerðisbæ og Sveitarfélagið Ölfus.