Embætti héraðssaksóknara hefur fellt niður samtals 62 skattamál eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp dóm sinn í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar þann 18. maí á þessu ári. Skattstofn þessara 62 mála nemur samtals um 9,7 milljörðum, en þegar kemur að sekt í slíkum málum getur hún numið tvöfaldri og upp í tífalda upphæð vangoldinna skatta. Sagt var frá málinu fyrst í Kjarnanum.
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir í samtali við mbl.is að niðurfelling málanna sé mikil blóðtaka og vinna þurfi út frá þessari niðurstöðu héraðssaksóknara. Hins vegar ætli embættið að fara fram á við ríkissaksóknara að einhver hluti málanna verði endurskoðaður. Þá segir hún nú þurfi að fara yfir fjölda kyrrsetningamála sem hafi komið til vegna þessara skattamála sem og að endurskoða þurfi ýmislegt hjá þeim stofnunum sem annist skattabrot og rannsóknir þeirra.
Samkvæmt lista skattrannsóknarstjóra sem birtur hefur verið á heimasíðu embættisins er skattstofn umfangsmesta málsins um 2,2 milljarðar og er bæði vegna vanframtaldra tekna og fjármagnstekna. Tengist það greiðslum frá erlendu félagi, vaxtatekjum og hlutabréfaviðskiptum. Í öðru stóru máli eru vanframtaldar tekjur vegna kaupa á hlutabréfum á lægra verði en gangverð, óheimilar úthlutanir úr lögaðila og vanframtalin stjórnarlaun með skattstofn að upphæð 876 milljónir, en stærstur hlutinn er vegna vanframtaldra tekna og um 3 milljónir vegna fjármagnstekna.
15 önnur mál eru með skattstofn yfir 100 milljónum, en ástæður þeirra eru meðal annars tekjur í formi lána- og kaupréttarsamnings frá erlendum félögum, tekjur vegna framvirkra samninga og hlutabréfaviðskipta, tekjur vegna gjaldmiðlasamninga og vaxtatekjur vegna fjármuna erlendis.
Í máli Mannréttindadómstólsins komst dómstóllinn að því að ekki væri hægt að refsa mönnum tvisvar fyrir sama mál, en fyrst hafði skattur verið endurákvarðaður auk álags á þá Jón Ásgeir og Tryggva vegna skattalagabrota tengdum Baugi og Gaumi. Síðar voru þeir dæmdir í skilorðsbundið fangelsi vegna málsins. Þannig var niðurstaða dómsins að þeir hefðu bæði hlotið refsingu frá skattinum og ákæruvaldinu sem byggðu á sama grunni.
Í nýju dómafordæmi Hæstaréttar í september þar sem byggt var á niðurstöðu Mannréttindadómstólsins var niðurstaðan að mynda þyrfti samþætta heild í málum sem þessum og var ákærði í málinu sakfelldur og sektaður til viðbótar við fyrri endurákvörðun. Hæstiréttur telur því tvöfalda refsingu ekki ólögmæta ef um samþætta heild málsins er að ræða.
Í heild hefur embætti héraðssaksóknara verið með um 150 mál til rannsóknar vegna meintra skattabrota þar sem um tvöfalda refsingu er að ræða. Voru þau sett í bið á meðan beðið var eftir niðurstöðu úr máli Jóns Ásgeirs og Tryggva, en sem fyrr segir hafa nú 62 mál verið felld niður. Bryndís segir að búast megi við því héraðssaksóknari komist að sömu niðurstöðu um fleiri mál, en þó séu önnur mál í þessum hópi sem fordæmið eigi ekki við. Þar sé meðal annars að ræða mál lögaðila.
„Ég mun fara fram á að einhver málanna verði tekin upp aftur, en það liggur fyrir að nokkur þessara mála eru farin,“ segir hún og vísar þar meðal annars til þess að tímarammi til refsingar í nokkrum þeirra sem fyrndur. „En það eru nokkur mál þarna sem að okkar mati er verið að ganga full langt með að fella niður. Þar munum við óska eftir afstöðu ríkissaksóknara,“ segir Bryndís.
Spurð um framhaldið segir hún að niðurstaðan að mál hafi verið felld niður sé fúl og „mikil blóðtaka,“ en nú liggi þetta fyrir og þá þýði ekki að berja hausinn við steininn.
Hluti málanna kom upp eftir að embættið festi kaup á erlendum gögnum um meint skattaundanskot Íslendinga erlendis. Bryndís segir að þótt málin hafi verið felld niður hjá saksóknara, þá hafi kaup á gögnunum skilað talsverðu. Þannig hafi stór hluti málanna verið afgreiddur af ríkisskattstjóra og í flestum málum hafi verið skatturinn verið endurákveðinn. Það sé aftur á móti í tengslum við mögulega sekt og ákæru sem stór hluti geti verið glataður.
Samhliða niðurfellingu þessara mála segir Bryndís að ráðast þurfi í að skoða nokkurn fjölda kyrrsetninga og aflétta þeim. Var farið fram á kyrrsetningu eigna í tengslum við mörg mál, bæði fyrir endurákvörðun og mögulega fésekt.
Bryndís segir að þegar horft sé fram veginn í skattrannsóknarmálum að eftir síðasta dóm Hæstaréttar sé í fyrsta lagi ljóst að kerfið haldi. Þ.e. það er hægt að beita bæði álagi og refsingu fyrir dómstólum, að því gefnu að það sé um samþættingu í tíma og efni sem Mannréttindadómstóllinn gerir kröfu um. Segir hún að allir rannsóknaraðilar og ákærendur þurfi nú að passa vel upp á þessi mál, sérstaklega tímarammanna. „Þá ætti þetta að ganga upp.“
Spurð hvort ekki sé réttur tími núna til að endurskoða kerfið í heild sinni, jafnvel með það í huga hvort sameina eigi embætti skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara eða gefa skattrannsóknarstjóra ákæruvald segir Bryndís að í raun kalli staðan í dag ekki á að gerð sé breyting. Hún segir umræðu um þessi mál þó mjög þarfa og skoða eigi hvort gera eigi breytingar.
Meðal þeirra hugmynda sem hafa komið fram í þessa átt er að fækka málum sem fara til héraðssaksóknara þannig að þau verði frekar afgreidd innan stjórnsýslunnar, að álagi verði ekki beitt eða að skattkrafan fari samhliða refsimálinu fyrir dóm. Til viðbótar að sameina skuli embætti eða að skattrannsóknarstjóri fái ákæruvald. Segist Bryndís ekki vilja segja af eða á með neina eina leið í þessum efnum.
Dómsmálaráðherra skipaði eftir dóm Mannréttindadómstólsins starfshóp til að fara yfir hvernig standa skuli að skattrannsóknarmálum og mögulegum refsingum vegna þeirra til frambúðar. Sá starfshópur hefur ekki lokið störfum. Samkvæmt upplýsingum mbl.is eru mismunandi skoðanir milli stofnana sem koma að þessum málum hvaða leið skuli fara og er þá meðal annars horft til lengd á málsmeðferð, líkinda á að sakfellt sé í málum og hvort réttara sé að ljúka málum með endurákvörðun og sátt eða með ákæru. Líklegt er að starfshópurinn muni leggja fram ýmsar hugmyndir að mögulegum leiðum í þessum efnum, en að endingu verður það pólitísk ákvörðun hvaða leið verður valin, ef ákveðið verður að gera breytingar.