Hélt að vinkonan hefði gengið í sjóinn

Horft yfir Sæbraut. Myndin er úr safni.
Horft yfir Sæbraut. Myndin er úr safni. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Misskilningur á milli tveggja kvenna virðist hafa valdið því að önnur konan hringdi í Neyðarlínuna í gærkvöldi og tilkynnti um að hin hafi gengið í sjóinn við Sæbraut. Þetta segir Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. Mikill viðbúnaður var vegna málsins en svo virðist sem ekki hafi verið um vísvitandi gabb að ræða.

Það var klukkan 20:19 í gær sem tilkynning barst um að manneskja hefði farið í sjóinn við Sæbraut. Björgunarbáturinn Óðinn var sendur á vettvang, auk tiltæks lögregluliðs, þar sem menn leituðu við frekar erfiðar aðstæður. Hitamyndavél var á meðal þeirra tækja sem notuð voru við leitina.

Fjörutíu og níu mínútum síðar, eða klukkan 21:08, kom á daginn að um falskt útkall hafi verið að ræða. Tvær konur voru í kjölfarið handteknar og færðar til fangageymslu. Þær voru yfirheyrðar í nótt.

Guðmundur Páll segir að eitthvert ósætti hafi verið á milli kvennanna. Einhver misskilningur hafi valdið því að konan sem hringdi í Neyðarlínuna taldi hina hafa gengið í sjóinn. „Þetta er misskilningur sem sprettur upp af ósætti. Þetta var ekki gert  til að blekkja viðbragðsaðila á vettvang,“ segir hann við mbl.is en matið byggir á lestri skýrslna um málið.

Málið fer nú til ákærusviðs en rannsókn þess er ekki lokið. „Við skoðum hvað verður gert. Rannsóknin er enn þá í gangi. Við munum hnýta alla enda,“ segir hann og viðurkennir að um óvenjulegt mál sé að ræða.

Aðspurður segir hann að hvorug konan hafi verið undir áhrifum áfengis eða vímuefna og honum sé ekki kunnugt að þær hafi komið við sögu lögreglu áður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert