Mál Benedikts og Jóns Steinars þingfest

Jón Steinar Gunnlaugsson.
Jón Steinar Gunnlaugsson. Kristinn Ingvarsson

Meiðyrðamál Hæstaréttardómarans Benedikts Bogasonar gegn fyrrverandi Hæstaréttardómaranum Jóni Steinari Gunnlaugssyni var þingfest í dag í Héraðsdómi Reykjaness í Hafnarfirði. Var gefinn fjögurra vikna greinargerðarfrestur í málinu og er því áformað að skila greinargerðum þann 13. desember.

Benedikt höfðaði málið vegna ummæla Jóns Steinars í nýútkominni bók hans „Með lognið í fangið – Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“. Taldi Benedikt ummæli Jón Steinars um dómsmorð dómara við réttinn í máli ákæruvaldsins gegn Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, vera ærumeiðandi. Samtals fer hann fram á að fimm ummæli í bókinni verði dæmd dauð og ómerk.

Lögmaður Benedikts í málinu er Vilhjálmur Vilhjálmsson og verjandi Jón Steinars er Gestur Jónsson. Voru aðrir lögmenn mættir fyrir þá við þingfestinguna, en slíkt er mjög algengt við þingfestingar í einkamálum.

Benedikt Bogason, dómari við Hæstarétt Íslands.
Benedikt Bogason, dómari við Hæstarétt Íslands.

Óskað var eftir sex vikna fresti til að skila greinargerð en dómari taldi fjögurra vikna frest nægan. Var því samið um það, en hægt er að framlengja slíka fresti í næsta þinghaldi séu báðir málsaðilar samþykkir því.

Jón Steinar hefur sagt að hann eigi ekki von á að stefnan beri mikinn árangur og að það sé eins og þagga eigi niður í gagnrýni hans á Hæstarétt.

Í gær var greint frá því að í stefnu málsins væri vísað til afskipta Jón Steinars af máli Baldurs þegar það var tekið fyrir í Hæstarétti á sínum tíma. Var Jón Steinar vanhæfur í málinu vegna vináttu sinnar við Baldur. Viðurkenndi Jón Steinar að hafa beitt samdómara sína þrýstingi í málinu, meðal annars með að afhenda þremur dómurum minnisblað með lögfræðilegum upplýsingum um innherjasvik, en fyrir þau var Baldur ákærður.

Var minnisblaðið sett upp með fjórum spurningum og svörum og hölluðu þau öll í þá átt að Baldur væri saklaus af ákæruliðum málsins. Baldur var síðar dæmdur í tveggja ára fangelsi vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert