Sjúkratryggingar Íslands munu fara yfir verkferla sína í framhaldi af bloggfærslu Ágústs H. Bjarnason grasafræðings, sem mbl.is greindi frá um helgina. Ágúst sagði farir sínar af samskiptum við Sjúkratryggingar Íslands, Landspítalann og fleiri stofnanir ekki sléttar. Ágúst missti eiginkonu sína, Sólveigu Aðalbjörgu Sveinsdóttur, fyrir ári eftir þriggja og hálfs árs baráttu við ólæknandi MND-sjúkdóm og var m.a. ósáttur við að haft var samband við fjölskylduna til að sækja sjúkrarúm Sólveigar daginn sem hún lést.
„Það er alveg ljóst að það er mikið til í því sem hann [Ágúst] er að gagnrýna okkur fyrir og þar af leiðandi er ekkert annað að gera en að harma óþægindin sem hann og kona hans urðu fyrir,“ segir Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands í samtali við mbl.is. „Um leið, þá þakkar maður fyrir ábendingarnar og það er alveg ljóst að við munum hér reyna að bæta úr.“
Steingrímur Ari segir málið hafa verið rætt hjá starfsfólki Sjúkratrygginga, þar sem það hefur verið tekið til skoðunar. „Við munum fara yfir verkferla í framhaldinu,“ bætir hann við.
Ágúst lýsir í bloggfærslu sinni baráttu við svifaseint kerfi og erfiðleikum við að fá hjálpartæki afgreidd, m.a. að fá lyftur settar upp innan- og utanhúss fyrir Sólveigu. Eins hafi verið mikið stapp að fá samþykkt að íbúð þeirra hjóna hentaði áfram til búsetu fyrir Sólveigu eftir greiningu.
Spurður hvort að hann kannist við að kerfið sé svifaseint kveðst Steingrímur Ari ekki vilja fara út í einstök atriði. „Það eru alltaf tvær hliðar á öllum málum,“ segir hann en játar því þó að kerfið geti vissulega verið svifaseint. „Síðan geta auðvitað hlutir gerst sem eiga ekki að gerast og sem jafnvel eru einstakir eða án fordæma, eins og þessi beiðni um að fá að sækja sjúkrarúmið samdægurs,“ segir hann. „Það er einsdæmi að svona gerist og auðvitað þegar að það gerist, þá ganga menn í að tryggja að það gerist ekki aftur.“
Ágúst gagnrýnir einnig að starfsfólk Landspítala hafi geta sótt um hluti til Sjúkratrygginga fyrir hönd Sólveigar án þess að þeim hafi verið kunnugt um það fyrr en eftir á. Steingrímur Ari kveðst ekki vilja tjá sig um þau mál. Hann bendir þó á að í mörgum tilvikum þurfi vottorð og umsagnaraðila og eins hafi miklar breytingar verið gerðar í því að straumlínulaga ferla undanfarið ár.
Hvað baráttu þeirra Ágústar og Sólveigar við að sanna að hægt væri fyrir þau að gera nauðsynlegar breytingar á íbúð sinni til að þau gætu búið þar áfram, segir Steingrímur Ari það vera dæmi um eitthvað sem Sjúkratryggingar vilji fylgja eftir.
„Þarna snýst þetta um reglugerð sem við vinnum eftir, þar segir að það þurfi að kanna möguleikan á að hluteigandi skipti um húsnæði. Þá þurfum við að gera það.“
Í kaflanum um lyftur í reglugerð um hjálpartæki segir: „Heimilt er að greiða lyftur fyrir hjólastólanotendur og þá sem eru með mjög skerta göngugetu og nota gönguhjálpartæki á heimili umsækjenda. Skilyrði er að umsækjendur þurfi nauðsynlega að nýta báðar hæðir húsnæðis vegna frumþarfa (að húsnæðið henti með tilliti til fötlunar/færnisskerðingar umsækjanda að öðru leyti og að ekki sé möguleiki á að skipta um húsnæði).“
Bendir Steingrímur Ari á að með þessari klausu séu miklar skyldur settar á Sjúkratryggingar.
„En auðvitað er gríðarlega mikilvægt að menn hafi hagsmunina að leiðarljósi og vissulega skiptir þá máli hvort að verið er að tala um hjálpartæki sem kosta hundruð þúsunda eða milljónir. Svo er þetta auðvitað líka alltaf spurning um framsetningu og að menn séu nærgætnir í samskiptum við sjúkratryggða.“
Eins lýsir Ágúst ströggli við að fá rétta hjólastóla afgreidda fyrir Sólveigu. Svo virðist sem sjúklingur fái afhent það sem sé til á lager óháð hvort það henti honum. Þá hafi starfsmaður Heimahlynningar gripið til þess að lýsa aðstæðum á heimilinu verri en þær væru til að flýta afgreiðslu á heppilegum stól.
„Menn eru að leitast við að fara eftir reglum og vera sjálfum sér samkvæmir í afgreiðslu mála. Að því sögðu er jafnframt leitast við að hafa hagsmuni hins sjúkratryggða að leiðarljósi,“ segir Steingrímur Ari er hann er spurður út í þessa lýsingu. „Það er engum greiði gerður með því að leggja til tæki ef það er síðan ekki hægt að nota það, eða notkun þess er verulega skert. Þá er reynt að horfa á hlutina heilstætt og í þessu tilviki hvort að það sé möguleiki á að breyta eða skipta um húsnæði eins og lögin gera ráð fyrir til þess að hlutaðeigandi fái þá notið hjálpartækisins eða þess sem hjálpartækinu er ætlað að koma til móts við. Auðvitað getur þetta verið erfitt og allt tekur þetta tíma sem reynir líka á fólk.“
Stöðugt sé hins vegar unnið að því að straumlínulaga þessa ferla. „Ég leyfi mér að fullyrða að okkur hefur tekist vel upp þar og náð að betrumbæta margt á umliðnum misserum,“ segir hann.
„Að hluta til gengur þetta þá út á það að fela ytri aðilum að klára mál og þá umbreytist okkar hlutverk ef til vill úr því að vera að afgreiða beint hluti í að vera að fylgjast með því að menn fari eftir settum reglum.“
Ágúst lýsir í bloggfærslu sinni að sú staða hafa komið upp að útlit yrði fyrir að Sólveig yrði matarlaus í 3 daga er leyfi fyrir afhendingu á „sondu“-fæði rann út. Leyfisbeiðnin þurfti að fara í gegnum Sjúkratryggingar, heimahjúkrun og heimilislækni til að fást afgreidd hjá fyrirtækinu sem selur fæðið.
„SÍ krafðist þess að fá vottorð á pappír, sem hafði það í för með sér, að Sólveig yrði matarlaus frá föstudegi til þriðjudags,“ segir í færslu Ágústar.
„Nú voru góð ráð dýr. Haft var samband við Landspítala (Fossvogi) og þar fékkst einn lítri af „sondu“-næringu. Síðan varð að kaupa LGG, súrmjólk og sitthvað fleira, sem talið var óhætt að gefa Sólveigu. Sem betur fer tókst að mestu leyti að brúa þetta „matarlausa“ bil fram að kvöldi þriðjudags.“
Steingrímur Ari vill ekki tjá sig um þetta tilvik sérstaklega, en segir þó alveg ljóst að þarna hafi hlutir farið úrskeiðis. „Þá eru ein skilaboðin þau að það sé mikilvægt að hlutaðeigandi séu vel upplýstir um það hvernig hlutirnir eiga og geta gengið fyrir sig, þannig að það verði ekki neitt rof í þjónustu eða því sem fólk á rétt á að fá,“ segir hann.
Spurður hvort brotalöm kunni að vera á því að fólk rati í gegnum kerfið þegar það þurfi á aðstoð Sjúkratrygginga að halda og til að það átti sig á því hver sinn réttur þess sé, segir Steingrímur heimaþjónustuaðilann vera í lykilhlutverki í máli eins og þeirra Sólvegar og Ágústs. Þar séu persónulegu samskiptin við þann sem þiggur þjónustuna líka mest.
„Þetta eru fagaðilar sem kunna sitt fag og eiga og geta leiðbeint mönnum í gegnum það sem þeir þurfa að ganga í gegnum. Auðvitað er ýmislegt í boð og ekki auðvelt að halda utan um alla þá aðstoð sem menn eiga rétt á, en ég held að það megi og eigi að ganga út frá því að fagaðilar sem margir hafi margra ára reynslu séu almennt að standa sig vel í því.“