„Þetta eru leiðinlegar fréttir. Það er bara þannig. Maður sér ekki strax hvaða samfélagslegu áhrif þetta hefur, en hlutfallslega er þetta gríðarlegur fjöldi starfa sem er að hverfa úr sveitarfélaginu. Það er erfitt að kyngja því,“ segir Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstóri í Ölfusi. Í dag var tilkynnt að Frostfiskur hygðist hætta allri starfsemi sinni í Þorlákshöfn og flytja hana til höfuðborgarsvæðisins. Við það leggjast af 50 störf í bæjarfélaginu.
Ekki er nema rétt rúmt ár síðan á fjórða tug starfsmanna var sagt upp hjá fiskvinnslu Froskfisks í Þorlákshöfn, en þegar mest lét fyrir nokkrum árum voru starfandi um 120 manns hjá fyrirtækinu. „Yfir lengra tímabil er þetta því mikið högg.“ Gunnsteinn segir það þó hafa verið vitað í nokkurn tíma að róðurinn hjá Frostfiski hafi verið þungur og fréttirnar því kannski ekki komið á óvart. Þær komi engu að síður mjög illa við íbúa Þorlákshafnar.
„Fólk er uggandi yfir þessu og finnst þetta slæmar fréttir. Það er enginn sem er jákvæður í garð þessa. Þetta hefur mest og verst áhrif á starfsfólkið sem þarna er, þá sérstaklega fjölskyldufólk. Þetta skapar mestu óvissuna hjá þeim,“ segir Gunnsteinn, en langflestir starfsmenn Frostfisks eru búsettir í Þorlákshöfn.
Hann segir að eflaust muni einhverjir starfsmenn fylgja fyrirtækinu til höfuðborgarsvæðisins en hafa áfram búsetu í Þorlákshöfn. Allavega til að byrja með. „Það munu eflaust margir horfa til þess og einhverjir byrja á því og leita svo nýrra starfa eða flytja nær starfsstöðinni. Það er erfitt að segja til um það. Þetta kemur miklu róti á fólk og skapar óvissu, það gefur auga leið.“
Að sögn Gunnsteins hafa forsvarsmenn sveitarfélagsins unnið að því að að því að efla atvinnutækifæri á svæðinu, þá sérstaklega í Þorlákshöfn. „Okkur hefur svosem orðið ágengt í því á síðustu árum. Það hefur orðið til hérna fjöldi nýrra starfa, bæði í fiskeldi og í tengslum við vöruflutninga í gegnum höfnina. Það gerist hins vegar ekki með sama hraða og hnignunin í sjávarútveginum. Því miður.“
Gunnsteinn segir erfitt að segja til um hvaða áhrif það komi til með að hafa samfélagið að 50 störf leggist af í einu vetfangi. „Það er þannig að það hafa orðið gríðarlegar breytingar, kannski samfélagsbreytingar um leið, á síðustu árum. Hér hafa rótgróin útgerðarfyrirtæki verið seld hreinlega, eða allar aflaheimildir seldar frá þeim. Nú er þetta fyrirtæki að fara og á síðustu tveimur, þremur árum farið úr 120 starfsmönnum niður í 50. Samt sem áður er fólki að fjölga hérna, þannig samfélagsgerðin er kannski að breytast. Ég á því erfitt með að sjá hver þróunin verður. Hitt er annað að atvinnuuppbygging hér á svæðinu skiptir gríðarlegu máli og það er áfall að missa svona mörg störf.“
Gunnsteinn er engu að síður bjartsýnn á framtíð Þorlákshafnar. „Það eru hér gríðarleg tækifæri og maður sér fyrir sér að innan ekki langs tíma muni eiga sér gríðarlega mikil uppbygging hér.“
Þá vonast hann til að þessar neikvæðu fréttir veki fólk til umhugsunar um framtíð byggðaralaga hér á landi. „Ég vonast kannski til að akkúrat þetta leiði til þess að menn opni augu sín fyrir því að það þarf eitthvað að gera fyrir byggðarlög sem telja meira en 400 íbúa. Að það séu til aðgerðir til að hjálpa þeim líka.“