Í gær varð alvarleg bilun hjá íslenska hýsingarfyrirtækinu 1984, sem fyrirtækið lýsir á vefsíðu sinni sem algjöru kerfishruni. Fyrirtækið hýsir heimasíður fjölmargra fyrirtækja og félaga hérlendis. Þeirra á meðal eru vefir stjórnmálaflokka, en sem dæmi má nefna að vefsvæði Sjálfstæðisflokksins og Pírata liggja niðri vegna kerfishrunsins.
Í tilkynningu á vefsíðu 1984 segir að þeir viðskiptavinir sem séu í venjulegri hýsingu fái vefi sína og tölvupóst enduruppsettann úr afritum og að fyrirtækið reyni að bjarga gögnum annarra viðskiptavina ef hægt sé.
Fyrirtækið hefur einnig notað Twitter til þess að koma skilaboðum áleiðis til viðskiptavina sinna.
Tilkynning 1984 ehf. í heild sinni:
„Við höfum ávallt verið hreinskilin við okkar viðskiptavini og höldum því áfram.
Í gær varð gríðarlega alvarleg bilun í kerfum 1984 og þvi miður algert kerfishrun. Við munum vinna sleitulaust að því að laga það sem hægt er að laga.
Þeir viðskiptavinir sem eru í venjulegri hýsingu fá vef sína og tölvupóst enduruppsettan úr afritum og við reynum að bjarga gögnum annarra viðskiptavina ef hægt er.
Við biðjum viðskiptavini að sýna okkur þolinmæði á þessum erfiða tíma.“