Færðumst of mikið í fang

Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, segir það sitja í sér að …
Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, segir það sitja í sér að ekki hafi tekist að klára stjórnarskrármálið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra, líst ekki vel á þá rík­is­stjórn sem nú er í smíðum en tel­ur engu að síður að Katrín Jak­obs­dótt­ir muni standa sig vel sem for­sæt­is­ráðherra. Þetta kom fram í viðtali við Jó­hönnu í Kast­ljósi RÚV í kvöld, en Jó­hanna var þar að kynna ævi­sögu sína, Minn tími.

„Mér líst ekki á þá rík­is­stjórn sem er að koma, en ég óska henni samt góðs ef af henni verður og ég veit að Katrín mun standa sig vel sem for­sæt­is­ráðherra,“ sagði Jó­hann.

Hún kvaðst enn­frem­ur hafa haldið að hrunið myndi breyta meiru hjá stjórn­mála­mönn­um en raun hefði verið. „Spill­ing­ar­mál og annað er hins veg­ar enn að grass­era í sam­fé­lag­inu.“

Spurð um tíma sinn á for­sæt­is­ráðherra­stóli og þá gagn­rýni sem sú stjórn hafi hlotið um að bregðast m.a. í tengsl­um við áætlan­ir um skjald­borg heim­il­anna og að marg­ir hafi farið af landi brott, sagði Jó­hanna:

„Ég held að það sé of mikið gert úr því. Ég held að það sé líka okk­ur og mér að kenna fyr­ir að hafa ekki kynnt þetta bet­ur en við gerðum.“ Benti hún á að 200-300 millj­örðum hefði verið varið í að af­skrifa skuld­ir á kjör­tíma­bil­inu og að skuld­astaða heim­il­anna hefði árið 2012 verið orðin sú sama og hún var á ár­un­um 2006-2007.

„Ég tel að við höf­um gert þarna mjög góða hluta og þegar ég hugsa þetta aft­urá­bak þá held ég að við höf­um færst of mikið í fang,“ sagði Jó­hanna um þá stjórn. „Það var ekki bara að bjarga þjóðina frá gjaldþroti, bjarga heim­il­un­um og fyr­ir­tækj­un­um, held­ur vor­um við líka með plön um stjórn­ar­skrána og fisk­veiðistjórn­un­ar­kerfið svo dæmi séu tek­in.“

Eft­ir á að hyggja þá hefði verið skyn­sam­legra að skipu­leggja þess­ar aðgerðir yfir tvö kjör­tíma­bil.

Hún seg­ir hins veg­ar ótrú­legt miðað við ferlið sem fór af stað í kring­um stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar að ekk­ert hafi orðið af breyt­ing­um á stjórn­ar­skránni. „1.000 manns tóku þátt í vinn­unni, stjórn­lagaþing með aðkomu allra nema þing­manna gerði grunn­inn að stjórn­ar­skránni, stór hluti henn­ar fer í þjóðar­at­kvæðagreiðslu og er samþykkt­ur þar og þingið bara hunds­ar það.“

Kveðst Jó­hanna alltaf hafa verið hissa á að Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son, þáver­andi for­seti Íslands, hafi ekki veitt stjórn­ar­skrár­mál­inu braut­ar­gengi. Þess í stað hefði hann verið lítt hjálp­leg­ur í mál­inu þrátt fyr­ir að vera „maður þjóðar­at­kvæðagreiðslna“.

„Þetta er það mál sem mest sit­ur í mér,“ sagði Jó­hanna.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert