Færðumst of mikið í fang

Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, segir það sitja í sér að …
Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, segir það sitja í sér að ekki hafi tekist að klára stjórnarskrármálið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, líst ekki vel á þá ríkisstjórn sem nú er í smíðum en telur engu að síður að Katrín Jakobsdóttir muni standa sig vel sem forsætisráðherra. Þetta kom fram í viðtali við Jóhönnu í Kastljósi RÚV í kvöld, en Jóhanna var þar að kynna ævisögu sína, Minn tími.

„Mér líst ekki á þá ríkisstjórn sem er að koma, en ég óska henni samt góðs ef af henni verður og ég veit að Katrín mun standa sig vel sem forsætisráðherra,“ sagði Jóhann.

Hún kvaðst ennfremur hafa haldið að hrunið myndi breyta meiru hjá stjórnmálamönnum en raun hefði verið. „Spillingarmál og annað er hins vegar enn að grassera í samfélaginu.“

Spurð um tíma sinn á forsætisráðherrastóli og þá gagnrýni sem sú stjórn hafi hlotið um að bregðast m.a. í tengslum við áætlanir um skjaldborg heimilanna og að margir hafi farið af landi brott, sagði Jóhanna:

„Ég held að það sé of mikið gert úr því. Ég held að það sé líka okkur og mér að kenna fyrir að hafa ekki kynnt þetta betur en við gerðum.“ Benti hún á að 200-300 milljörðum hefði verið varið í að afskrifa skuldir á kjörtímabilinu og að skuldastaða heimilanna hefði árið 2012 verið orðin sú sama og hún var á árunum 2006-2007.

„Ég tel að við höfum gert þarna mjög góða hluta og þegar ég hugsa þetta afturábak þá held ég að við höfum færst of mikið í fang,“ sagði Jóhanna um þá stjórn. „Það var ekki bara að bjarga þjóðina frá gjaldþroti, bjarga heimilunum og fyrirtækjunum, heldur vorum við líka með plön um stjórnarskrána og fiskveiðistjórnunarkerfið svo dæmi séu tekin.“

Eftir á að hyggja þá hefði verið skynsamlegra að skipuleggja þessar aðgerðir yfir tvö kjörtímabil.

Hún segir hins vegar ótrúlegt miðað við ferlið sem fór af stað í kringum stjórnarskrárbreytingar að ekkert hafi orðið af breytingum á stjórnarskránni. „1.000 manns tóku þátt í vinnunni, stjórnlagaþing með aðkomu allra nema þingmanna gerði grunninn að stjórnarskránni, stór hluti hennar fer í þjóðaratkvæðagreiðslu og er samþykktur þar og þingið bara hundsar það.“

Kveðst Jóhanna alltaf hafa verið hissa á að Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti Íslands, hafi ekki veitt stjórnarskrármálinu brautargengi. Þess í stað hefði hann verið lítt hjálplegur í málinu þrátt fyrir að vera „maður þjóðaratkvæðagreiðslna“.

„Þetta er það mál sem mest situr í mér,“ sagði Jóhanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert