Kerfishrunið alvarlegt fyrir samskipti á Íslandi

Þúsundir viðskiptavina 1984 verða fyrir áhrifum vegna kerfishrunsins.
Þúsundir viðskiptavina 1984 verða fyrir áhrifum vegna kerfishrunsins. mbl.is/Skjáskot

„Þessi bilun var svo óvenjuleg og rosaleg einhvernveginn að við sátum á fundi með helstu sérfræðingum landsins í þessum málum og horfðum á vélarnar okkar deyja. Allir bara standa á gati og vita ekkert hvað gerðist. Mönnum ber saman um að þeir hafi aldrei séð svona lagað áður,“ segir Mörður Ingólfsson, framkvæmdastjóri hýsingarfyrirtækisins 1984, sem varð fyrir algjöru kerfishruni í gær.

„Það sem kom uppá var að það komu fram bilanir sem tengjast gagnageymslum og þær voru svo alvarlegar að við í raun misstum öll okkar aðalkerfi niður, meira og minna.“

Mörður segir starfsmenn fyrirtækins vinna samkvæmt neyðaráætlun, sem felst í því að setja tölvupóstþjónustu og vefsíður upp á öðrum hýsingarstað upp úr afritum. „Það mun taka einhvern tíma því að við erum með mjög marga viðskiptavini og við biðjum þá um að fyrirgefa okkur þetta og sýna þolinmæði. Við munum ekki una okkur hvíldar fyrr en þetta er allt komið upp aftur.“

Mörður Ingólfsson, framkvæmdastjóri 1984 ehf.
Mörður Ingólfsson, framkvæmdastjóri 1984 ehf.

Mjög alvarlegt fyrir samskipti á Íslandi

Mörður segir þetta hafa áhrif á alla viðskiptavini 1984. „Þeir eru nokkur þúsund, svo þetta er mjög alvarlegt fyrir samskipti á Íslandi. Við hýsum mjög stóran hluta af tölvupóst Íslendinga og erum mjög meðvitaðir um ábyrgð okkar og höfum alltaf gætt þess að eiga alltaf afrit af öllum hlutum, allri þessari deildu hýsingu sem þessi algenga hýsing sem er mest notuð af okkar viðskiptavinum.“

Hann segir ekki ljóst hvað olli biluninni.

„Við höfum alltaf vandað okkur við að vera með mjög vandaðan vélbúnað. Það er ekkert vitað hvort þetta var vélbúnaðar- eða hugbúnaðarbilun og það er ekkert víst að það verði nokkurn tímann vitað, það verður bara tíminn að leiða í ljós.“

Mörður segir öryggissérfræðing telja það afar ósennilegt að um tölvuárás hafi verið að ræða. „Ég er ekki með neitt annað í höndunum en hans álit á því.“

Einhver gögn mögulega töpuð

Tilkynningar fyrirtækisins gefa í skyn að möguleiki sé á að einhver gögn hafi tapast endanlega í kerfishruninu. Mörður segir að það sé rétt, en muni ekki snerta hinn almenna viðskiptavin fyrirtækisins.

„Það lýtur að „virtual private server“ þjónustu. Þar leigjum við út sýndarþjóna og þetta eru í rauninni bara fagmenn sem nota svona þjóna. Almennir notendur nota þetta ekki. Allir hinir almennu viðskiptavinir okkar munu fá sitt vefsvæði og tölvupóst settan upp á nýtt.“

Mörður vill koma þökkum til þeirra sem hafa unnið með 1984 ehf. í þessum erfiðu aðstæðum. „Starfsmenn Nýherja og Syndis störfuðu með okkur sleitulaust í gær við að fylgjast með þessu ástandi og reyna að finna út úr þessu og ég vil þakka þeim fyrir ótrúlega fagmennsku og hjálpfýsi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert