Fóstureyðingum fækkaði lítillega alls staðar á Norðurlöndunum árið 2015 frá fyrra ári, að Svíþjóð undanskilinni. Í samanburði við önnur Evrópulönd er tíðni fóstureyðinga fremur lág á Norðurlöndunum. Þegar á heildina er litið hefur samanlagður fjöldi fóstureyðinga á Norðurlöndunum lítið breyst undanfarinn áratug. Þetta kemur fram í Talnabrunni Embættis landlæknis.
Norðurlöndin eiga það sammerkt að fóstureyðingum meðal kvenna yngri en 20 ára hefur fækkað verulega undanfarinn áratug. Þess ber að geta að við fjölþjóðlegan samanburð verður að hafa í huga mismunandi lagaumhverfi Evrópulanda sem hefur áhrif á fjölda skráðra og framkvæmdra fóstureyðinga.
Í Evrópu eru fóstureyðingar til að mynda algengastar í löndum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum en fæstar eru þær á Írlandi, Möltu og í Póllandi. Í síðarnefndu löndunum eru fóstureyðingar í raun ólöglegar eða aðgengi að þeim mjög takmarkað. Þetta kemur einnig fram í talnabrunninum.
Af Norðurlandaþjóðunum er náttúruleg fólksfjölgun mest á Íslandi, auk Grænlands og Færeyja, þrátt fyrir að dregið hafi úr frjósemi á Íslandi undanfarin ár, þ.e. fjölda lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu.
Árið 2010 gat hver kona vænst þess að eignast að meðaltali 2,2 lifandi fædd börn en árið 2016 var þessi tala komin niður í 1,75. Almennt er miðað við að frjósemin þurfi að vera um 2,1 barn til þess að viðhalda mannfjöldanum.