Gert að borga fyrir eigin brottflutning

Andri Snær Magnason rithöfundur hitti Amir á Ítalíu fyrr á …
Andri Snær Magnason rithöfundur hitti Amir á Ítalíu fyrr á þessu ári. Skjáskot/Facebook

Íranska hæl­is­leit­and­an­um Amir Shokrgoz­ar, sem vísað var frá Íslandi í fylgd fimm lögreglumanna í febrúar á þessu ári og hann sendur til Ítalíu, er gert að greiða reikninginn fyrir brottflutninginn ætli hann að flytja hingað til lands aftur.

Mikið var fjallað um mál Amirs á sínum tíma en hann flúði heima­land sitt vegna kyn­hneigðar sinn­ar. Áður en hann kom til Íslands var hann á flótta á Ítal­íu þar sem hann var of­sótt­ur, bæði lík­am­lega og and­lega, jafnt fyr­ir kyn­hneigð sína sem og kristna trú, og var hópnauðgað í flótta­manna­búðum þar í landi.

Amir og íslenskur unnusti hans, Jóhann Emil Stefánsson, höfðu reynt að fá að gifta sig hér á landi fyrir brottflutninginn. Lög um útlendinga sem tóku gildi hér á landi um síðustu áramót  kveða hins vegar á um að til þess að fólk gæti sótt um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar þurfi fólk að vera gift í eitt ár eða lengur.

Í skuldaviðurkenningunni er tíundaður sá kostnaður sem Amir er gert …
Í skuldaviðurkenningunni er tíundaður sá kostnaður sem Amir er gert að bera. Skjáskot/Facebook

Selja bílinn upp í skuldina

Þeir Amir og Jóhannes, eða Jói eins og hann er kallaður, giftu sig á Sikiley á miðvikudaginn í síðustu viku. Áður en Amir getur fengið leyfi til að snúa aftur til Íslands þá verður hann engu að síður að greiða íslenska ríkinu fyrir brottflutning sinn og dagpeninga lögregluþjónanna sem voru látnir fylgja honum út.

Amir vekur athygli á málinu á Facebook-síðu sinni og býður þar til sölu bíl sem þeir eiga svo hann geti greitt skuldina.

Þar birtir hann skuldayfirlýsingu vegna kostnaðarins við brottvísunina. Þar kemur fram að honum beri að greiða 427.907 kr. fyrir fimm lögregluþjóna sem fylgdu honum úr landi. Einnig eigi hann að greiða íslenska ríkinu 120.422 kr. í dagpeninga fyrir lögregluþjónana. Samtals hljóðar skuldin, að hans eigin flugfari meðtöldu upp á 634.944 kr.

„Þetta er há upphæð fyrir venjulegt fólk,“ segir Jói í samtali við mbl.is.  Íslensk yfirvöld séu hörð á því að Amir komi ekki til landsins  fyrr en skuldin hefur verið greidd og þeir þori ekki að taka áhættuna.  

„Við ætlum að reyna að selja bílinn upp í skuldina,“ segir hann en bíllinn er af gerðinni Toyota Avensis árgerð 2004. Jói segir þá fá viðbrögð frá fólki sem sýni máli þeirra samúð en bíllinn sé enn óseldur. Auk þess eru þeir með söfnunarreikning til að safna upp í skuldina.

„Um leið og þessi upphæð er borguð og gögnin eru komin inn hjá Útlendingastofnun þá er hann kominn.“ 

Sálarástandið ekki gott

Amir hefur  dvalið á Sikiley að mestu frá því hann var sendur út. Hann sendi neyðarkall á Facebook-hóp Íslendinga sem tengjast eyjunni er hann kom út og spurði hvort einhver gæti hjálpað. „Hann vildi ekki fara aftur í flóttamannabúðirnar af því að þar var honum nauðgað þegar hann var þar síðast,“ segir Jói.

„Á Sikiley var maður frá Íslandi sem var í stóru húsi og með auka herbergi og hann bauð honum að vera. Þannig að það væsir ekki um hann, en sálarástandið er samt ekki gott.“

Jói kveðst hafa talað við Amir í dag og hljóðið í honum sé ekki gott. „Það leita á hann sjálfsvígshugsanir, þannig að ég vonast til að geta komið honum heim sem fyrst.“

Söfnunarreikningur þeirra Jóa og Amirs er: 0370 26 163. Kt 010570-3449

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert