Nýr ketill hefur myndast í Öræfajökli

Hér sést ketillinn vel.
Hér sést ketillinn vel. Mynd/Ágúst J. Magnússon

Nýr sigketill, um einn kílómetri í þvermál, hefur myndast í öskjunni í Öræfajökli síðastliðna viku. Þetta sýna nýlegar gervihnattamyndir af jöklinum. Þá náði flugstjóri í farþegaflugi einnig ljósmyndum í dag og sendi Veðurstofunni. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að ketillinn endurspegli nýlega aukningu á jarðhitavirkni í öskju Öræfajökuls.

Svo virðist sem jarðhitavatn hafi lekið hægt undan katlinum og komið fram undan Kvíárjökli, en brennisteinslykt hefur fundist í nágrenni við Kvíá síðastliðna viku. Líklega er mesta vatnið nú þegar runnið undan katlinum.

Mynd/Eldfjalla- og Náttúruvárhópur Háskóla Íslands

Aukin skjálftavirkni hefur verið síðustu mánuði, en heldur hefur dregið úr henni síðustu daga. Þessi gögn benda til aukinnar virkni í eldstöðinni sem hefur ekki gosið síðan 1727. Engin merki eru þó um gosóróa eða yfirvofandi eldgos, að kemur fram í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að Landhelgisgæslan muni fljúga með vísindamenn til að kanna aðstæður og taka sýni í fyrramálið. Veðurstofan hefur aukið vöktun á svæðinu og fylgist vel með í samráði við jarðvísindamenn Háskóla Íslands og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.

Veðurstofa Íslands hefur í kjölfar þessarar auknu virkni hækkað litakóða Öræfajökuls í gulan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert