Rafleiðni heldur áfram að hækka í Múlakvísl á Mýrdalssandi. Há rafleiðni hefur mælst í ánni síðustu daga og hefur hækkað verulega síðustu tvo daga og mælist nú 430 míkrósímens/cm.
Frétt mbl.is: Há rafleiðni og gas mælist við Múlakvísl
„Það er lítið vatn í ánni hins vegar og það er það kalt orðið að vatnið er við frostmark þannig að eina vatnið sem er að renna undan ánni er jarðhitavatn,“ segir Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Af þeim sökum rennur hvorki leysingavatn eða lindarvatn í ána og þess vegna er rafleiðnin líklega svona há, að sögn Bryndísar.
Talsvert magn af gasi hefur einnig verið að mælast á svæðinu. Mörkin eru óbreytt frá því í gær og mælist styrkleiki gassins í kringum 1 ppm.
Nokkuð líklegt er að hærri gildi mælist nær ánni en þau geta valdið óþægindum. „Fólki er ráðlagt að vera ekki mikið við ána eða í lægðum í landslagi nálægt ánni þar sem gasið gæti safnast fyrir,“ segir Bryndís.
Upptök rafleiðninnar má líklega rekja til Mýrdalsjökuls að sögn Bryndísar. „Þetta er þekkt jarðhitasvæði og það bendir ekki til annars en að upptökin séu frá jöklinum.“