Ræddu örlög bankakerfisins

Davíð Oddsson þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands og núverandi ritstjóri …
Davíð Oddsson þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, og Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra. Í símtalinu þeirra er Davíð afdráttarlaus um að með þeirri ákvörðun stjórnvalda að veita lánið til Kaupþings sé útséð um fjármögnun hinna viðskiptabankanna. mbl.is/Golli

Í endurriti af símtali milli Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins, og Geirs H. Haarde forsætisráðherra, sem átti sér stað skömmu fyrir hádegi hinn 6. október 2008, má sjá að í fyrri samskiptum þeirra í milli hafi forsætisráðherra lagt á það áherslu að allra leiða yrði leitað til að bjarga Kaupþingi frá gjaldþroti. Endurrit þetta hefur aldrei komið fyrir augu almennings fyrr en nú þegar Morgunblaðið birtir það í heild sinni.

Í símtalinu segir Davíð Oddsson að Seðlabankinn geti „skrapað saman 500 milljónir evra“, en bætir við að með því sé bankinn kominn „inn að beini“. Með lánveitingunni taldi hann hægt að fleyta Kaupþingi áfram í fjóra til fimm daga.

Réði örlögum hinna tveggja

Í símtalinu er seðlabankastjóri einnig afdráttarlaus um að með þeirri ákvörðun stjórnvalda að veita lánið til Kaupþings sé útséð um fjármögnun hinna viðskiptabankanna. „Þá getum við ekki hjálpað Landsbankanum líka,“ segir hann við forsætisráðherra. Spyr hann því forsætisráðherra hvort það sé í raun vilji ríkisstjórnar að bjarga Kaupþingi fremur en Landsbankanum. Svar forsætisráðherra er ekki afdráttarlaust en hnígur þó í þá átt þegar hann segir: „það slær mig þannig sko og mér finnst þeir vera líka á þeirri línu í gærkvöldi allavega þessir Morgan-menn.“ Vísar Geir þar til ráðgjafa þeirra sem ríkisstjórnin hafði kallað til sinnar þjónustu frá bandaríska fjárfestingarbankanum J.P. Morgan.

GEIR H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, spurði Davíð hvort ákvörðun um …
GEIR H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, spurði Davíð hvort ákvörðun um þessa leið myndi leiða til þess að Landsbankinn yrði gjaldþrota strax þennan sama dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Seðlabankastjóri ræddi við forsætisráðherra um mikilvægi þess að fullburða veð yrðu tekin gegn lánveitingunni og að það myndi gerast með allsherjarveði í danska FIH-bankanum. Ítrekaði hann einnig að slík væri stærðargráða þessarar lánveitingar að hún færi með bankann „inn að beini“ og að bankinn yrði að vera algjörlega öruggur með veðhæfi eignarinnar.

Spurði forsætisráðherra þá hvort Landsbankinn hefði ekkert veð að bjóða í líkingu við það sem Kaupþing gat reitt fram í formi FIH-bankans. Benti þá seðlabankastjóri á að hvort sem svo væri eða ekki skipti það ekki máli því Seðlabankinn hefði einfaldlega ekki fjármagn til frekari lánveitinga.

Svört mynd dregin upp

Spurði forsætisráðherra hvort ákvörðun um þessa leið myndi leiða til þess að Landsbankinn yrði gjaldþrota strax þennan sama dag. Svar seðlabankastjóra var: „Já, þá myndi hann fara í dag á hausinn væntanlega.“

Spurði forsætisráðherra því næst út í stöðu Glitnis: „Og Glitnir á morgun?“ og seðlabankastjóri svaraði: „Og Glitnir á morgun.“ Af þessum orðaskiptum má ráða að Geir og Davíð hafi talið óvinnandi veg að bjarga nema einum banka og raunar virðist sem seðlabankastjóri hafi talið litlar líkur á að Kaupþing gæti staðið í skilum vegna þrautavaralánsins. Sagði hann fullyrðingar forsvarsmanna bankans þar um vera „ósannindi eða við skulum segja óskhyggja“.

Í símtalinu segir Davíð Oddsson að Seðlabankinn geti „skrapað saman …
Í símtalinu segir Davíð Oddsson að Seðlabankinn geti „skrapað saman 500 milljónir evra“, en bætir við að með því sé bankinn kominn „inn að beini“ mbl.is/ Ómar Óskarsson

Lánveitingin tengd neyðarlögunum

Síðar í símtalinu víkja Geir og Davíð að setningu neyðarlaganna og virðast þeir gera það í tengslum við þau vandkvæði sem hinir svokölluðu Icesave-reikningar ollu. Með þeirri leið sem farin var með neyðarlögunum taldi Davíð að forða mætti því að tjónið vegna reikninganna legðist á íslensku þjóðina.

„[...] þetta er besta leiðin ef við getum afskrifað allar skuldir þjóðarinnar þó að það muni valda vandræðum í Evrópu þá en þeir bara hjálpuðu okkur ekki neitt...“ segir Davíð og Geir tekur undir. Þá víkur talinu að fundi sem Geir hyggst halda með formönnum stjórnmálaflokkanna í Stjórnarráðinu.

Leki nær óhjákvæmilegur

Velta þeir fyrir sér hvernig best sé að nálgast umræðuna á þeim fundi og spyr Davíð Geir: „En hvað mega menn vera einlægir?“ Segir Geir þá að hann hafi ekki dregið neitt undan í samskiptum við þessa aðila og Fjármálaeftirlitið og að hann muni ítreka að: „við erum bara hérna að tala hérna saman í fyllstu einlægni um alvarlegustu vandamál sem upp hafa komið í þjóðfélaginu og ég treysti ykkur til að fara ekki með það.“

Telur Geir augljóslega að trúnaður hafi verið haldinn um það sem fór milli stjórnvalda og annarra í tengslum við neyðarlagasetninguna. Bendir Davíð þó á í samtalinu að erfitt sé að treysta á að slíkt haldi: „þú getur aldrei haldið lokinu,“ segir hann um málið.

Símtal forsætisráðherra og formanns bankastjórnar Seðlabankans mánudaginn 6. október 2008

Ritari Gjörðu svo vel. 

Davíð Halló.

Geir Sæll vertu.

Davíð Sæll það sem ég ætlaði að segja þér, sko, sko, við út af fyrir sig getum í dag skrapað saman 500 milljónir evra en náttúrlega, en erum þá komnir inn að beini og þá gætum við hjálpað Kaupþingi í einhverja fjóra fimm daga en þá getum við ekki hjálpað Landsbankanum líka, sko.

Geir Nei.

Davíð Þú ert að tala um það að við eigum frekar að reyna að hjálpa Kaupþingi.

Geir Það slær mig þannig sko og mér fannst þeir vera líka á þeirri línu í gærkvöldi allavega þessir Morgan menn. 

Davíð Ég býst við því að við fáum ekki þessa peninga til baka. Þeir segja að þeir muni borga okkur eftir fjóra fimm daga en ég held að það séu ósannindi eða við skulum segja óskhyggja. 

Geir En eru þeir ekki með einhver veð?

Davíð Við myndum aldrei lána það og við ætlum að bjóða þetta gegn 100% veði í FIH banka.

Geir Já.

Davíð Og þá verðum við að vita að sá banki sé veðbandalaus.

Geir Já.

Davíð Því þá við megum ekki, sko, við megum ekki setja íslenska ríkið á galeiðuna.

Geir Nei, nei þetta eru 100 milljarðar, spítalinn og Sundabrautin.

Davíð Já, já ert þú ekki sammála því að við verðum að gera ýtrustu kröfur? 

Geir Jú, jú. 

Davíð Já.

Geir Ég held að þeir muni leggja mikið á sig til að reyna samt að að uppfylla þær, sko. 

Davíð Já, já, já, já það er bara eina hættan er sú að þeir séu búnir að veðsetja bréfin og þá geta þeir ekki gert þetta, sko.

Geir Já, já og hvað myndum við koma með í staðinn?

Davíð Ja, það veit ég ekki, þá verðum við bara að horfa á það en það, við erum bara að tala um ýtrustu veð, erum að fara með okkur inn að beini þannig að við verðum að vera algjörlega öruggir. 

Geir En er Landsbankinn ekki með neitt slíkt sem hann geti látið okkur hafa?

Davíð Já, en þá er að við erum ekki með pening í þetta. Við erum að fara alveg niður að rassgati og við ætlum meira að segja að draga á Danina sem ég talaði við í gær og sagði að við myndum ekki gera. 

Geir Já.

Davíð En við erum búnir að tala við bankastjórana þar og þeir eru að íhuga að fara yfir þetta.

Geir Um.

Davíð Það tekur tvo til þrjá daga að komast í gegn.

Geir Já.

Davíð En við myndum skrapa, Kaupþing þarf þetta í dag til að fara ekki á hausinn.

Geir Já, en það er spurning með þá, fer þá Landsbankinn í dag?

Davíð Já, þá myndi hann fara í dag á hausinn væntanlega.

Geir Og Glitnir á morgun?

Davíð Og Glitnir á morgun.

Geir Já.

Davíð Landsbankanum verður væntanlega lokað í dag bara.

Geir Já.

Davíð Við vitum ekki, reyndar vitum við ekki hvort það er árás á Kaupþing Edge. Við gerum ráð fyrir því þeir hafa ekki sagt okkur það ennþá. 

Geir Er það á Icesave?

Davíð Það eru farnar 380 milljónir út af Icesave punda og það eru bara 80 milljarðar.

Geir Þeir ráða aldrei við það, sko. 

Davíð Nei, þeir ráða aldrei við neitt af því, sko, en þetta er það besta leiðin ef við getum afskrifað allar skuldir þjóðarinnar þó að það muni valda vandræðum í Evrópu þá en þeir bara hjálpuðu okkur ekki neitt þannig að það er ha...

Geir Já, já.

Davíð Þannig að þetta er nú... 

Geir Heyrðu, ég var að spá í að halda hérna fund klukkan eitt og ætlaði að biðja þig að koma þangað annað hvort einan eða með þeim sem þú vilt hafa með með öllum formönnum stjórnmálaflokkanna.

Davíð OK.

Geir Og Fjármálaeftirlitinu? 

Davíð Já.

Geir Til að fara yfir þetta og...

Davíð En það, getur þú ekki haft það Jónas ekki Jón Sigurðsson það er óeðlilegt að... 

Geir Jónas, hann var hjá okkur í morgun.

Davíð Og hvað ertu að hugsa um að?

Geir Ég myndi vilja að það yrði farið í fyrsta lagi yfir frumvarpið án þess kannski að afhenda þeim það en...

Davíð En hvað mega menn vera einlægir?

Geir Ég er búinn að vera mjög einlægur við þá.

Davíð Já.

Geir Ég er eiginlega búinn að segja þeim þetta allt.

Davíð OK.

Geir Ég segi bara að við erum bara hérna að tala hérna saman í fyllstu einlægni um alvarlegustu vandamál sem upp hafa komið í þjóðfélaginu og ég treysti ykkur til að fara ekki með það.

Davíð Já, já. 

Geir Og það hafa þeir virt held ég ennþá. 

Davíð Ja, þeir hafa sagt einhverjum af örugglega en það er bara, þú getur aldrei haldið lokinu. 

Geir Nei.

Davíð Fastara en þetta á.

Geir Nei, en...

Davíð Klukkan eitt eða hvað? 

Geir Bara hérna hjá mér í ríkisstjórnarherberginu.

Davíð Hérna niðri í stjórnarráði?

Geir Já. 

Davíð OK.

Geir Spursmálið er svo hérna...

Davíð Ég kem bara einn held ég, það er betra að vera þarna fámennt en fjölmennt.

Geir Já og þá myndum við fara almennt yfir heildarmyndina.

Davíð Já.

Geir Og af hverju þessi lög eru nauðsynleg.

Davíð Já, já.

Geir Og svo er ég að plana það þannig að lögin verði orðin að lögum um sjöleytið, mælt fyrir þeim klukkan fjögur, þingflokksfundir klukkan þrjú og það ætti að skapa okkur rými til þess að...

Davíð Mælt fyrir þeim klukkan fjögur?

Geir Já.

Davíð OK. 

Geir Já, er það ekki rétti tíminn?

Davíð Jú, jú, jú, jú, jú, jú.

Geir Ég er búinn að undirbúa það að þetta geti fengið hraða afgreiðslu og þeir...

Davíð Já, já.

Geir Hafa haft góð orð um það.

Davíð Fínt er.

Geir OK bless, bless. 

Davíð Bless.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka