Rafleiðni í Múlakvísl á Mýrdalssandi heldur áfram að aukast og samkvæmt nýjustu mælingum sem gerðar voru í dag mælist rafleiðnin 560 míkrómens/cm.
Reynir Ragnarsson, fyrrverandi lögregluvarðstjóri í Vestur-Skaftafellssýslu, hefur eftirlit með mælingum á rafleiðni í ánni. „Ég hef ekki séð svona háa leiðni í henni áður,“ segir Reynir í samtali við mbl.is.
Hann flýgur auk þess reglulega yfir Mýrdalsjökul og í dag greindi hann tvo sigkatla, en segir að ekki sé von á neinum stórtíðindum, þó svo að rafleiðnin sé há.
Að sögn Bryndísar Ýrar Gísladóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, segja sigkatlarnir lítið um rafleiðnina. Upptökin koma hins vegar frá jöklinum. „Þetta er þekkt jarðhitasvæði og það bendir ekki til annars en að upptökin séu frá jöklinum.“
Líklegt er að hærri gildi mælist nær ánni en þau geta valdið óþægindum. Fólki er því ráðlagt að vera ekki í nágrenni við ána að óþörfu og varast lægðir í landslagi.
Frétt mbl.is: Óráðlegt að vera á ferðinni við Múlakvísl