Jarðvísindamenn voru við mælingar á Öræfajökli í dag og mældu meðal annars nýjan sigketil sem hefur myndast í öskju jökulsins síðustu daga. Ketillinn er um einn kílómetri í þvermál, en Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir það hafa komið í ljós við mælingarnar að ketilinn er um 15 til 20 metra djúpur.
Þegar blaðamaður mbl.is náði tali af honum var hann á leið á fund um stöðuna á jöklinum, en frekari upplýsingar verða gefnar út í kvöld. „Þetta er í stíl við það sem hefur verið og við teljum ekki að himinn og jörð séu að farast,“ sagði Magnús rétt áður en hann rauk á fundinn.
Öræfajökull er nú merktur með gulu á viðvörunarkorti sem gefið er út af Veðurstofunni og sýnir núverandi ástand eldstöðvakerfa á landinu. Gulur litur merkir að eldstöðin sýnir merki um virkni umfram venjulegt ástand.
Þá lýsti ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi, yfir óvissustigi almannavarna í gærkvöldi. Var það gert vegna vísbendinga um aukna virkni í Öræfajökli.
Virkni við jökulinn hefur verið að aukast síðasta árið en síðustu tæpar tvær vikur hefur skjálftavirknin dottið niður. Tilkynning um brennisteinslykt hefur gerir það hins vegar að verkum að talin er ástæða til að fylgjast vel með jöklinum. Þá sýndu nýjar gervitunglamyndir nýjan sigketil sem myndast hefur í öskjunni síðastliðna viku.
„Það er enginn gosórói en eldstöðin sýnir merki um virkni sem er umfram eðlilegt ástand,“ sagði Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is fyrir hádegi í dag.