Solaris - hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi hafa komið af stað undirskriftasöfnun fyrir hinn eins og hálfs ára gamla Leo Nasr Mohammed og foreldra hans, Nasr Mohammed Rahimog Sobo Anwar Hasan. Með undirskriftunum vilja samtökin hvetja yfirvöld til að veita fjölskyldunni skjól og vernd á Íslandi.
Fjölskyldan kom hingað til lands 20. mars en þá hafði beiðni þeirra um hæli í Þýskalandi verið hafnað. Umsókn þeirra um hæli á Íslandi var endanlega hafnað í byrjun október.
Sema Erla Serdar, formaður Solaris, greinir frá undirskriftasöfnunninni á Facebook-síðu sinni í nafni Leo.
„Hæ vinir. Þetta er Leo litli hérna aftur. Ég vil þakka ykkur öllum fyrir að deila sögunni minni, mér þykir mjög vænt um það<3 Vinir mínir í Solaris - hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi eru búnir að setja af stað undirskriftasöfnun fyrir mig og mömmu og pabba. Þau eru ekki sátt við að yfirvöld séu enn og aftur að brjóta á réttindum barna og taka ávarðanir sem eru börnunum augljóslega ekki fyrir bestu í skjóli einhverrar úreltrar, valkvæðrar reglugerðar og skora á íslensk yfirvöld að virða réttindi okkar, sýna mannúð, réttlæti og samkennd og veita okkur skjól og vernd á Íslandi,“ segir meðal annars í færslunni.
Í viðtali við mbl.is í október sagði fjölskyldufaðirinn Nasr meðal annars að fjölskyldunnar biði dauðarefsing ef þau verða send aftur til Írans en þangað verða þau send vegna þess að þeim hefur verið hafnað í Þýskalandi.
Frétt mbl.is: Grátbiðja um að fá að vera hér áfram
Þau líta á sig sem Kúrda en Nasr er með írakst ríkisfang og Sobo með íranskt. Faðir Sobo er háttsettur íslamskur klerkur og var fjölskylda hennar algjörlega á móti því að hún giftist Nasr. Þrátt fyrir óánægða fjölskyldu gengu Nasr og Sobo í það heilaga. Þau óttuðust samt reiða ættingja Sobo og flúðu til heimaborgar Nasr í Írak. Þaðan flúðu þau til Þýskalands þegar þau heyrðu af því að reiðir fjölskyldumeðlimir Sobo hefðu elt þau frá Íran og hótað þeim lífláti.
Leo fæddist í Þýskalandi en er í raun ríkisfangslaus, enda hefur hann verið á flótta allt sitt líf. Foreldrar hans segja að samkvæmt siðum í Íran sé barnið talið tilheyra Evrópu af því að þar er fæðingarland þess.
„Ef við förum aftur til Írans teljum við líklegt að hann verði grýttur til dauða. Þau munu segja að hann sé trúlaus eða kristinn og eigi enga framtíð í Íran, eins og foreldrar hans,“ sagði Nasr í viðtali við blaðamann mbl.is í október.
Hér má skrifa undir undirskriftalistann.