Vilja veita Leo vernd á Íslandi

Sobo Anw­ar Has­an, Leo Nasr Mohammed og Nasr Mohammed Rahim …
Sobo Anw­ar Has­an, Leo Nasr Mohammed og Nasr Mohammed Rahim hefur verið synjað um hæli hér á landi. mbl.is/Árni Sæberg

Solaris - hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi hafa komið af stað undirskriftasöfnun fyrir hinn eins og hálfs ára gamla Leo Nasr Mohammed og foreldra hans, Nasr Mohammed Rahimog Sobo Anw­ar Has­an. Með undirskriftunum vilja samtökin hvetja yfirvöld til að veita fjölskyldunni skjól og vernd á Íslandi.

Fjöl­skyld­an kom hingað til lands 20. mars en þá hafði beiðni þeirra um hæli í Þýskalandi verið hafnað. Um­sókn þeirra um hæli á Íslandi var end­an­lega hafnað í byrjun október.

Sema Erla Serdar, formaður Solaris, greinir frá undirskriftasöfnunninni á Facebook-síðu sinni í nafni Leo.

Hæ vinir. Þetta er Leo litli hérna aftur. Ég vil þakka ykkur öllum fyrir að deila sögunni minni, mér þykir mjög vænt um það<3 Vinir mínir í Solaris - hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi eru búnir að setja af stað undirskriftasöfnun fyrir mig og mömmu og pabba. Þau eru ekki sátt við að yfirvöld séu enn og aftur að brjóta á réttindum barna og taka ávarðanir sem eru börnunum augljóslega ekki fyrir bestu í skjóli einhverrar úreltrar, valkvæðrar reglugerðar og skora á íslensk yfirvöld að virða réttindi okkar, sýna mannúð, réttlæti og samkennd og veita okkur skjól og vernd á Íslandi,“ segir meðal annars í færslunni.

Í viðtali við mbl.is í október sagði fjölskyldufaðirinn Nasr meðal annars að fjöl­skyld­unn­ar biði  dauðarefs­ing ef þau verða send aft­ur til Írans en þangað verða þau send vegna þess að þeim hef­ur verið hafnað í Þýskalandi.

Frétt mbl.is: Grátbiðja um að fá að vera hér áfram

Þau líta á sig sem Kúrda en Nasr er með ír­akst rík­is­fang og Sobo með ír­anskt. Faðir Sobo er hátt­sett­ur íslamsk­ur klerk­ur og var fjöl­skylda henn­ar al­gjör­lega á móti því að hún gift­ist Nasr. Þrátt fyr­ir óánægða fjöl­skyldu gengu Nasr og Sobo í það heil­aga. Þau óttuðust samt reiða ætt­ingja Sobo og flúðu til heima­borg­ar Nasr í Írak. Þaðan flúðu þau til Þýskalands þegar þau heyrðu af því að reiðir fjöl­skyldumeðlim­ir Sobo hefðu elt þau frá Íran og hótað þeim líf­láti.

Óttast að Leo verði grýttur til dauða

Leo fæddist í Þýskalandi en er í raun rík­is­fangs­laus, enda hef­ur hann verið á flótta allt sitt líf. For­eldr­ar hans segja að sam­kvæmt siðum í Íran sé barnið talið til­heyra Evr­ópu af því að þar er fæðing­ar­land þess.

„Ef við för­um aft­ur til Írans telj­um við lík­legt að hann verði grýtt­ur til dauða. Þau munu segja að hann sé trú­laus eða krist­inn og eigi enga framtíð í Íran, eins og for­eldr­ar hans,“ sagði Nasr í viðtali við blaðamann mbl.is í október.

Hér má skrifa undir undirskriftalistann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert