Fær 15 daga til að yfirgefa landið

Veitingastaðurinn Nauthóll.
Veitingastaðurinn Nauthóll. Mynd af Facebook-síðu Nauthóls

Kærunefnd útlendingamála hefur staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja Chuong Le Bui, kokkanema frá Víetnam, um dvalarleyfi hér á landi.

Henni hafa verið gefnir fimmtán dagar til að yfirgefa landið.

Chuong hefur starfað sem nemi á veitingastaðnum Nauthóli. „Mér finnst það út í hött að þetta mál sé ekki sett á frest fyrst Sigríður Andersen [dómsmálaráðherra] er búin að gefa út þá yfirlýsingu að þarna hefðu orðið mistök við lagabreytingu,“ segir Björn Ingi Björnsson, yfirmatreiðslumaður á Nauthóli.

Ákveðið var að vísa henni úr landi vegna breyt­inga á út­lend­inga­lög­um.

Chuong er hálfnuð með lög­bund­inn náms­samn­ing sinn og er á fyrstu önn í Mennta­skól­an­um í Kópa­vogi.

Áður en laga­breyt­ing­in tók gildi um ára­mót­in gátu þeir sem voru í fullu námi á há­skóla­stigi eða ígildi þess, eða í iðnnámi, fengið dval­ar­leyfi á meðan þeir stunduðu hér nám. Núna er búið að fella iðnnámið í burtu.

Chuong Le Bui.
Chuong Le Bui. Ljósmynd/Aðsend

„Þeir miða við þessi núgildandi lög, sem er í sjálfu sér ekki rangt,“ segir Björn Ingi en telur að miðað við þá athygli sem málið hennar vakti hefði hann haldið að henni yrði ekki synjað um dvalarleyfi.

Lögfræðingur er að vinna í máli hennar og ætlar að sækja um frestun réttaráhrifa og fara með málið í framhaldi fyrir dómstóla.

„Ég skil ekki að þetta þurfi að fara svona langt. Það er eins og dómsmálaráðuneytið og Útlendingastofnun séu ekki að ræða málin,“ segir Björn Ingi.

„Hún stefndi á að koma hérna inn og byrja að vinna um leið og hún væri búin með sín próf og sinn skóla, þá hefði hún verið komin á vaktir með okkur í eldhúsinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert