Tvær hrunskýrslur í janúar

Bæði Hannes Hólmsteinn og Seðlabankinn ætla að gefa út skýrslur …
Bæði Hannes Hólmsteinn og Seðlabankinn ætla að gefa út skýrslur um hrunið núna í janúar. mbl.is/Samsett mynd

Tvær skýrslur sem tengjast beint hruni íslenska fjármálakerfisins fyrir rúmlega níu árum síðan verða birtar í janúar. Er önnur skýrslan um veitingu þrautavaraláns Seðlabankans til Kaupþings rétt fyrir hrun bankans og hin skýrslan um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins. Beðið hefur verið eftir báðum skýrslunum í nokkurn tíma.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, hefur frestað birtingu á skýrslu sinni um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins fram í janúar. Í síðustu viku sagði hann við mbl.is að áformað væri að birta skýrsluna í dag, en á föstudaginn sagði Hannes að útgáfunni yrði frestað á ný fram yfir áramót.

Í sama mánuði ætlar Seðlabanki Íslands að birta skýrslu sem lýtur að veitingu þrautavaraláns til Kaupþings í október 2008, en lánið nam 500 milljónum evra og fólst í veitingu þess tilraun til að fleyta bankanum áfram þegar lokaðist fyrir allt aðgengi íslenska bankakerfisins að lánsfé á mörkuðum. Lánveitingin var meðal annars rædd í samtali Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, þáverandi formanns bankastjórnar Seðlabankans og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins, sem birt var í Morgunblaðinu á laugardaginn.

Vildi gefa fólki meira svigrúm til athugasemda

Skýrsla Hannesar er í kringum 315 blaðsíður að lengd og er á ensku. Á föstudaginn sagði hann í bloggfærslu að hann hefði lokið við skýrsluna. Hann hafi aftur á móti ákveðið að fresta skilum hennar og væntanlegri birtingu um nokkrar vikur þar sem hann taldi sanngjarnt að gefa þeim sem minnst er á í skýrslunni kost á að skýra mál sitt, leiðrétta og gera athugasemdir. 

Segir Hannes að sumir sem hann hafi haft samband við hafi kvartað yfir því að gefast ekki nægur tími til að gera athugasemdir. Segir hann að miðað sé við að dagsetninguna 16. janúar. Skýrslan átti upp­haf­lega að koma út árið 2015 sam­kvæmt samn­ingi Fé­lags­vís­inda­stofn­un­ar Há­skóla Íslands og fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­is­ins.

Seðlabankaskýrslan hugsanlega birt fyrr

Seðlabankinn sagði í svari til Morgunblaðsins að skýrsla þeirra, sem hefur verið í vinnslu um nokkurra ára skeið, muni að öllum líkindum líta dagsins ljós í janúar. Þó seg­ir í svari bank­ans  að það kunni „hugs­an­lega“ að ger­ast fyrr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert